Árið 1986 var samþykkt í borgarráði að byggja nýtt ráðhús við Tjörnina og tveimur árum síðar hófst bygging þess. En þá voru Reykvíkingar mótfallnir byggingunni samkvæmt skoðanakönnun sem DV gerði. Mjótt var á munum en andstæðingar ráðhússins voru 52,8 prósent á meðan stuðningsmenn voru 47,2 prósent. Réð þar úrslitum að talsverður meirihluti kvenna var andvígur á meðan lítill meirihluti karla var fylgjandi. Á landsvísu voru 60 prósent andvíg byggingunni sem var að lokum tekin í notkun árið 1992. Í ummælum þátttakenda kom meðal annars fram að ráðhúsið yrði ljótt, að Davíð ætti að finna sér eitthvað betra að gera og að betra væri að nýta féð í spítalana. Einn sagði það vera „náttúruspjöll að setja þetta flykki við Tjörnina.“