fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025

Bjuggu í kofa á Hellisheiði frá 1973 til 1984: „Amma var í fangelsi“

Ofbeldissamband í hálfa öld – Engin nútímaþægindi – Skapofsaköst afa – Ófu listaverk

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 11. mars 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Hellisheiði, á stað sem heitir Flengingabrekka í Hveradal, stóð lítið hrörlegt hús sem sett var saman úr kassatimbri og torfi og laust við öll nútímaþægindi. Þar bjuggu hjón á sjötugsaldri, Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon, á árunum 1973 til 1984 og ófu myndir af þjóðskáldum og stjórnmálamönnum. Saga þeirra er um margt dæmigerð fyrir íslenskt samfélag framan af 20. öldinni. Þau komu úr stórum systkinahópi, ólust upp við fátækt og lifðu í henni alla ævi. En þegar að er gáð er saga þessara alþýðulistamanna langt frá því hefðbundin. Ásdís Halla Bragadóttir, barnabarn Blómeyjar og stjúpbarnabarn Óskars, ræddi við DV.

„Að fara í heimsókn til þeirra sem barn var líkt því að fara aftur í tímann. En ég áttaði mig ekki strax á því að þetta var rosalega óvenjulegt. Ég hélt að sumir byggju bara svona. Þarna var ekkert rafmagn, rennandi vatn, klósett, sími eða neitt. Þau áttu eina kolaeldavél, það var tæknin. Þarna voru nokkur heimasmíðuð húsgögn eins og einn ruggustóll umvafinn teppum sem þau höfðu ofið. Rúmin voru einhverjar spýtur sem afi klastraði saman með skinni af geitum sem þau höfðu slátrað.“

Sjálfstæð og ákveðin ung kona.
Blómey Stefánsdóttir Sjálfstæð og ákveðin ung kona.

Mynd: Úr einkasafni

„Viltu koma með mér og verða stúlkan mín?“

Blómey, gjarnan kölluð Lóa, var fædd árið 1914 inn í fjórtán systkina hóp á Austfjörðum. Lengst af bjó fjölskyldan á Reyðarfirði en þaðan flutti Blómey ung því henni fannst þrengslin of mikil, bæði á heimilinu og firðinum. Hana dreymdi um að verða piparmey, laus við ofríki karlmanna og engum háð. Þetta sagði hún við vinkonur sínar sem voru sama sinnis. En Blómey fór til Siglufjarðar þar sem hún eignaðist dótturina Sigríði, kölluð Bebba, með manni sem bjó í sama húsi árið 1939. Þá flutti einstæð móðirin til Kópaskers þar sem hún tók að sér heimilishjálp hjá lækni staðarins.

Óskar fæddist í Þistilfirði í Norður-Þingeyjarsýslu árið 1915, eitt af fjölmörgum óskilgetnum börnum alræmds flagara sem kallaður var Merar Mangi. Hann nam búfræði við Hvanneyri og vildi hefja búskap en kreppan gaf ekkert rými fyrir það. Óskar var veturmaður á bæ í Þingeyjarsýslu þegar hann kynntist Blómey á dansleik á Kópaskeri.

„Viltu koma með mér og verða stúlkan mín?“ spurði Óskar og brá Blómey við þessa hispurslausu bón. Hún neitaði en hann gekk á eftir henni næstu daga. Fór svo að í eitt skiptið bauð hún honum upp í rúm til sín á læknisheimilinu. Uppi var fótur og fit þegar læknishjónin komu að og sáu Óskar nakinn. Sagði Óskar þá að Blómey væri stúlkan sín og myndi ljúka vistinni þá þegar. Blómey neitaði því ekki og hófst þá sambúð þeirra sem átti eftir að vara í meira en hálfa öld.

„Á þessum tíma var engin umræða um ofbeldissambönd, ekkert kvennaathvarf eða stuðningur.“
Ásdís Halla Bragadóttir „Á þessum tíma var engin umræða um ofbeldissambönd, ekkert kvennaathvarf eða stuðningur.“

Ofbeldissamband

Blómey og Óskar giftu sig í Dómkirkjunni í kyrrþey að viðstöddum prestshjónunum og engum öðrum. Í viðtali sem Ómar Ragnarsson tók árið 1996 sagði Blómey: „Við sögðum bæði já í það skiptið og þegar ég játaðist honum út fyrir gröf og dauða vissi ég að þannig yrði það af minni hálfu og yrði aldrei aftur tekið. Og þannig var það. Það var dauðinn sem aðskildi okkur.“

Saman eignuðust þau soninn Hallmar Stálöld árið 1941, nefndan í höfuðið á Sovétleiðtoganum Jósef Stalín sem Óskar hafði miklar mætur á. Hallmar var augasteinn þeirra en Óskari var aldrei vel við Sigríði stjúpdóttur sína. Í bók Ásdísar Höllu, Tvísaga, sem fjallar um fjölskyldu hennar, segir að Óskar hafi uppnefnt hana „hóruunga“. Hann var óheflaður skapofsamaður og litaður af kvenfyrirlitningu.

Snemma í sambúðinni komu upp vandræði þegar Blómey veiktist af berklum. Var hún á berklaheimilinu á Vífilsstöðum í tvö ár og svo á Kristneshæli í Eyjafirði. Á Kristnesi var Blómey „hoggin í lungun“ eins og það var kallað. Það var stór aðgerð þar sem rif voru fjarlægð og annað lungað, þar sem sýkingin var, látið falla saman. Eftir þetta var Blómey hins vegar afar veikburða í hægri handlegg.

Óskar vann í Bretavinnunni og í uppskipun í Reykjavík og gat ekki sinnt börnunum og því voru þau send í fóstur. Þegar Blómey náði bata var Hallmar sóttur en ekki Sigríður. Blómey fékk engu ráðið um fjölskylduhagi þeirra.

Var þetta ofbeldissamband?

„Ofbeldi getur verið andlegt og kúgun er ofbeldi. Lagði hann hendur á hana eða einhvern? Ég veit það ekki. En andlegt ofbeldi og stjórnsemi getur verið mjög yfirþyrmandi og það fer ekkert á milli mála að amma var í fangelsi þó að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr en löngu síðar. Að henni hafi verið rænt þennan dag þegar hún fór með honum frá Kópaskeri. En amma sagði okkur aldrei neitt svona.“

Hvað varð um sjálfstæðu og ákveðnu ungu konuna?

„Hún sagðist hafa verið það en margar konur sem lenda í ofbeldissamböndum geta sjálfar ekki útskýrt hvers vegna þær geta ekki slitið sig frá ofbeldismanninum. Á þessum tíma var engin umræða um ofbeldissambönd, ekkert kvennaathvarf eða stuðningur.“

„Það mátti enginn koma og hún mátti ekki fara. Einstaka sinnum stalst hún til að eiga samskipti við nágrannana en það var ekki vel séð af Óskari. Hann stjórnaði meira og minna öllum hennar ferðum.“

Kastalinn í Blesugróf

Fjölskyldan bjó á stað sem nefndist Blesugróf, þá í útjaðri Reykjavíkur. Fleiri hús voru á svæðinu þar sem bjó fátækt verkafólk og var nokkur spölur til Reykjavíkur. Þar byggði Óskar hús og stækkaði það smám saman allan tíman meðan þau bjuggu þar. Húsið nefndist Garðstunga en var títt nefnt Kastalinn og þótti sérkennilegt í flesta staði hvað varðar arkitektúr. Ægði þar saman alls kyns byggingaliststefnum frá útlöndum, til að mynda frá sjálfum Gádí, og rataði húsið inn í erlend tímarit vegna sérstöðunnar. Húsið var reist utan skipulags og gerðu hjónin sér fyllilega grein fyrir því að borgaryfirvöld gætu vísað þeim á brott, en engu að síður bjuggu þau þar í þrjá áratugi.

Blómey og Óskar ræktuðu grænmeti og tré í skikanum við Garðstungu. Einnig héldu þau ýmsar skepnur, svo sem hunda, ketti, hænsn, kalkúna og endur. Engin nútímaþægindi voru hins vegar í húsinu, rafmagn, sími eða hitaveita.

Óskar byggði Garðstungu að Blómey forspurðri þegar hún var á Kristnesi. Alla tíð var hún ósátt við húsakostinn en Óskar leit á hann sem mikilfenglegt verk. Í viðtali Ómars sagði hún: „Ég stóð frammi fyrir gerðum hlut og nýkomin af hæli var ég ekki í neinni aðstöðu til að breyta þessu. Mér fannst kofinn ömurlegur alla tíð, sama hve miklu hann bætti við hann og breytti honum uns hann var orðinn að stærðar húsi. Honum fannst hann stórkostlegur. Honum fannst alltaf allt svo stórkostlegt sem HANN gerði.“

Þrátt fyrir að önnur hús væru í nágrenninu var Blómey yfirleitt ein á meðan Óskar var við vinnu. Skýrðist það af mikilli afbrýðisemi og stjórnsemi hans. Ásdís segir: „Það mátti enginn koma og hún mátti ekki fara. Einstaka sinnum stalst hún til að eiga samskipti við nágrannana en það var ekki vel séð af Óskari. Hann stjórnaði meira og minna öllum hennar ferðum.“

Skömmu áður en hann lést.
Systkinin Sigríður og Hallmar Skömmu áður en hann lést.

Mynd: Úr einkasafni

Sonurinn varð úti við Höfða

Hallmar Stálöld, sonur þeirra, fór ungur á sjóinn. Eins og margir ungir sjómenn á þessum tíma drakk hann í landi og var stundum hjá Sigríði systur sinni sem bjó þá í Höfðaborg. Þau voru góðir vinir þrátt fyrir að hafa ekki alist upp saman.

Þann 10. desember árið 1964, þegar þau voru á miðjum þrítugsaldri, bankaði Hallmar upp á hjá systur sinni og var þá ölvaður en í það skiptið vildi hún ekki hleypa honum inn. Gekk hann þá að Höfða og sofnaði þar við einn vegginn. Varð hann þar úti og fannst hann látinn morguninn eftir. Í viðtali Ómars við Blómey segir að Blómey hafi viknað þegar talið barst að Hallmari. Sagði hún svo: „Það var mjög sárt og óvænt. Allt í einu var hann dáinn. Hann var hrifinn frá okkur á einu augabragði.“

Dauðsfallið markaði líf Blómeyjar og Óskars allar götur síðan og áttu þau ávallt erfitt með að ræða þetta. Óskar kenndi Sigríði um að hafa valdið dauða Hallmars og hrópaði ókvæðisorðum að henni.

Ásdís segir: „Hann var mjög andstyggilegur við mömmu og sakaði hana um að hafa myrt hann. Mamma fékk ekki að fara í jarðarförina hans sem er mjög erfið og sár minning. Að fá ekki að fylgja bróður sínum og besta vini til grafar.“

Notaði efni úr skíðastökkpalli

Eftir að Hallmar lést átti Óskar enga blóðerfingja og það angraði hann mjög. En húsið Garðstunga var sköpunarverk hans og það mark sem hann vildi skilja eftir sig í þessum heimi. Óskar vissi þó að vegna uppbyggingar Breiðholtsins myndi húsið þurfa að víkja fyrir nýju skipulagi og hóf að byggja nýtt hús langt frá Reykjavík. Árið 1967 fann hann stað á Hellisheiði þar hellir var og byrjaði að smíða.

Af hverju valdi hann þennan stað?

„Það voru tvær ástæður fyrir því. Hann fann þarna gamlan skíðastökkpall og sá að hann gat notað timbur úr honum til að smíða kofa. Þetta var uppi á fjalli og það voru engar mannaferðir þarna. Hann ímyndaði sér að þarna yrði hvorki lagður vegur né byggð nein hús og taldi að ef hann reisti sér þar kofa þá myndi hann fá að standa.“

En hann átti ekki landið?

„Nei, hann átti aldrei neitt.“

Borgarstjórn skipulagði Breiðholtsbrautina á því svæði sem húsin í Blesugrófinni stóðu og var íbúunum gert að víkja. Blómey og Óskari var boðin íbúð í blokk og vildi Blómey taka því boði. En Óskar harðneitaði og fór svo að þau fengu peningagreiðslu og fluttu austur á Hellisheiðina árið 1973 en þá var húsið, sem var einnig kallað Garðstunga, ekki fullbyggt og um tíma dvöldu þau í tjaldi á heiðinni.

Helgarpósturinn 19. október 1979
Garðstunga á Hellisheiði Helgarpósturinn 19. október 1979

Frumstætt líf á Hellisheiði

Garðstunga hin nýrri var mun hrörlegra húsnæði og, líkt og fyrirmyndin, var það laust við öll nútímaþægindi. Lágt var til lofts og herbergin lítil. Hitaveita var þar engin en hjónin notuðu kolakamínu til að hita upp húsið og elda mat. Að sögn lak húsið ekki en þar var alltaf saggi og fúkkalykt og vegna vanhugsaðrar staðsetningar kom vatn upp úr gólfinu endrum og eins.

Á þessum tíma voru hjónin komin á sjötugsaldur og Blómey sá ekki fyrir sér að eyða ellinni þarna. Gerðu þau samkomulag um að Blómey myndi búa á heiðinni með honum til sjötugs en flytja svo í borgina. Í níu ár bjuggu þau á Hellisheiði og máttu þola ofsarok á haustin og snjóbylji á veturna, svo slæma að þau þurftu að leita athvarfs í skíðaskálanum í Hveradölum.

Líkt og í Blesugróf héldu þau skepnur: geitur, endur, hænsn, hunda og ketti. Oft rytjulegar skepnur. Einnig ræktuðu þau grænmeti á skikanum í kringum húsið. Engan áburð höfðu þau annan en eigin úrgang úr koppum sínum.

Hvernig var heilsan hjá þeim?

„Þau voru kvik og ofboðslega létt á fæti. Þau lifðu ekki á neinu skyndibitafæði og örkuðu upp og niður fjöll alla daga þannig að þau voru grönn.“

Óskar vann verkamannavinnu hjá Skipaútgerð ríkisins í Reykjavík og hjólaði í bæinn, 35 kílómetra leið, og Blómey var því mikið ein í húsinu. Líkaði henni það svo illa að hún vildi helst dvelja úti undir beru lofti. Við Ómar sagði hún að það hefði verið ömurlegt að búa þarna öll þessi ár. „Ég vil ekkert vita af neinu frá þessum stað og aldrei koma þangað aftur.“

Ásdís segir: „Hún hafði algjöra óbeit á þessum stað og lá ekkert á því. En hann vildi vera þarna þar til yfir lyki.“

„Við sátum og ræddum um náttúruna, álfa og fleira og veltum fyrir okkur útsýninu. Þetta voru frábærar stundir.“
Fjallalíf „Við sátum og ræddum um náttúruna, álfa og fleira og veltum fyrir okkur útsýninu. Þetta voru frábærar stundir.“

Mynd: Úr einkasafni

Ofstæki og ofsóknaræði

Sem ung stúlka bjó Ásdís í Ólafsvík og hitti ömmu sína og afa ekki nema í örfá skipti á ári. Þá var Sigríður, móðir hennar, að reyna að kynnast foreldrum sínum í fyrsta sinn. Ásdís segir ömmu sína ávallt hafa sýnt henni og systur hennar hlýju þegar fjölskyldan kom í heimsókn upp á heiði og að afi hennar hafi ávallt boðið þau velkomin.

„Hann tók okkur alltaf fagnandi og var alltaf glaður að fá heimsókn. En inni á milli tók hann mikil skapofsaköst, sérstaklega ef honum fannst einhver vera að gagnrýna hann eða hans hugmyndir. Þetta gat verið mjög óhuggulegt á köflum og orðbragðið var svakalegt. Þegar hann tók þessi köst tók amma okkur með sér inn í herbergi og lokaði að okkur. Hún þorði aldrei að andmæla honum eða rökræða við hann.“

Telur þú að Óskar hafi átt við geðræn vandamál að stríða?

„Ég er ekki geðlæknir eða sérfræðingur á þessu sviði en mínar minningar um hann eru eins og fólk lýsir þeim sem eru ofstækisfullir og haldnir ofsóknarbrjálæði. Ég man sérstaklega eftir einu tilviki, eftir að þau fluttu af heiðinni. Þá sat hann við sjónvarpið og auglýsing birtist um að hvetja fólk til að ganga frá ógreiddum afnotagjöldum. Hann hélt að einhver væri inni í tækinu að tala við sig persónulega og brjálaðist yfir þessum ásökunum. Að ráðist væri á hann með þessum hætti inni á hans eigin heimili. Þá áttaði ég mig á því að hans skapofsaköst væru eitthvað meira en stuttur þráður, hann væri klárlega ekki alveg heill og væri að glíma við einhvers konar ofsóknaræði.“

Ásdís nefnir sérstaklega það mikla kvenhatur sem birtist í framkomu hans. Orðið hóra kemur nokkuð oft fram í tilvitnunum í hann í bókinni Tvísaga.

„Ég kom einu sinni með fréttir til þeirra sem ég hélt að yrðu gleðitíðindi; að ég hefði lokið stúdentsprófi og hygði á háskólanám. En þá trylltist afi. Hvernig í ósköpunum konum dytti það til hugar að fara í háskóla. Ég hafði lært að hlaupa ekki út því að þá hefði hann hlaupið á eftir mér, með barefli jafnvel. Ég sat því og fór að tala um eitthvað annað til að róa hann. Hálftíma síðar sagði hann að kannski væri allt í lagi að ég færi í háskóla því að ef ég eignaðist drengi yrði ég hæfari uppalandi fyrir þá.“

En hverjar voru bestu minningarnar?

„Það eru klárlega stundirnar sem ég átti með þeim uppi á fjöllum. Það var ofboðslega gaman. Að setjast við lækjarsprænu, afi kveikti á prímus, við suðum egg, tíndum lyng og hituðum te. Við sátum og ræddum um náttúruna, álfa og fleira og veltum fyrir okkur útsýninu. Þetta voru frábærar stundir.“

Þjóðviljinn 17. janúar 1981.
Innanhúss í Garðstungu nýrri Þjóðviljinn 17. janúar 1981.

Þekktir alþýðulistamenn

Þrátt fyrir látlausan húsakost öðluðust Óskar og Blómey nokkra frægð á sviði lista. Blómey óf myndir og teppi sem vöktu athygli listakonunnar Hildar Hákonardóttur sem dró hana á námskeið í vefnaði. Óskar, sem fram að þessu hafði aðeins fengist við málaralist, fór með á námskeiðið vegna afbrýðisemi og upp frá því hófst mikil vefnaðarlistaverkaframleiðsla þeirra.

Stór vefstóll fyllti næstum stofuna í Garðstungu og þar ófu þau myndir af íslenskum þjóðskáldum á borð við Jónas Hallgrímsson og Matthías Jochumsson en einnig þjóðhöfðingjum á borð við Stalín og Nixon. Í Tvísaga segir einnig af mynd sem Óskar óf af Evu á leið til djöfulsins eftir að hafa freistað Adams.

Þau ár sem þau bjuggu á Hellisheiði og ófu listaverk urðu þau nokkuð þekkt og blaðamenn heimsóttu þau í nokkur skipti. Verk þeirra rötuðu einnig út fyrir landsteinana, á farandsýningu listahópsins SÚM um Norðurlönd.

Fengu þau einhverja peninga fyrir verkin?

„Þau vildu ekki neina peninga. Afi var á móti peningum og var andstæðingur kapítalisma. Hann taldi að peningar væru óvinur mannkyns. Stundum notaði hann verk til að skipta fyrir mat eða efni til að geta ofið meira, en hann kærði sig ekki um að selja þau. Í eitt skipti fékk hann tilboð í stórt verk frá Skandinavíu og það hefði verið ágætis peningur fyrir þau á sínum tíma en hann tók það ekki í mál. Amma átti alltaf einhvern smá pening til að kaupa helstu nauðsynjar en hann mátti helst ekkert vita af því. Stundum laumaði hún hundrað kalli að mér og systur minni án þess að hann sæi til.“

Eru verkin enn þá til?

„Það er eitthvað til af verkum hér og þar. Amma lánaði Knúti Bruun lögmanni verk fyrir sýningu í Hveragerði og eitthvað gaf hún ættingjum.“

„Þá sat amma í baðkarinu, kappklædd, með skrúbb og var að þvo fötin utan á sér. Hún hafði aldrei farið í bað og vissi ekkert hvernig ætti að gera það.“

Hafði aldrei farið í bað

Samkomulag hjónanna hélt og flutti Blómey sjötug í gamalt hús við Hitaveituveg í Smálöndunum í Grafarholti árið 1984. Það voru mikil viðbrigði því þar voru þægindi á borð við rafmagn og vatnssalerni. Óskar þrjóskaðist við í nokkra mánuði en flutti svo til hennar. Hann vitjaði Garðstungu reglulega út lífið og var þar stundum vikum saman en hún fór þangað aldrei aftur.

Óskar fékk krabbamein og lést árið 1993 eftir stutta banalegu. Blómey hafði þá lifað í 54 ár með manni sem hún elskaði ekki og lengst af á stað sem hún fyrirleit. „Ég var aldrei hrifin af þessum manni. Aldrei,“ sagði hún við Ómar. „Ég lét aldrei neitt hagga mér, aldrei neitt á mig fá. Þess vegna er ég enn lifandi og orðin þetta gömul.“

Ásdís segir að samband ömmu sinnar við fjölskylduna hafi gerbreyst eftir að Óskar lést og þá fyrst hafi hún þorað að eiga frumkvæði. Hún var laus úr prísund. Um tíma bjó hún hjá þeim áður en hún fluttist að dvalarheimilinu Hrafnistu.

„Síðustu árin reyndi mamma að kenna ömmu að hugsa um sig og eftir nokkra daga hjá okkur lét hún renna í bað fyrir hana. Eftir stutta stund kíkti mamma inn til að athuga hvort amma þyrfti aðstoð við að komast upp úr. Þá sat amma í baðkarinu, kappklædd, með skrúbb og var að þvo fötin utan á sér. Hún hafði aldrei farið í bað og vissi ekkert hvernig ætti að gera það.“

Eftir að Óskar lést veðraðist Garðstunga hin nýrri smám saman niður. Húsið var manngengt í þrjú eða fjögur ár á eftir en hrundi síðan og er aðeins tóftir í dag. Blómey Stefánsdóttir lést árið 1997.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Þessar þjóðir eru með stærstu brjóstin – Íslenskar konur ofarlega á lista

Þessar þjóðir eru með stærstu brjóstin – Íslenskar konur ofarlega á lista
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Eru að skilja eftir 30 ára hjónaband

Eru að skilja eftir 30 ára hjónaband
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

FH útskýrir sitt mál: Fjölmiðlar harðlega gagnrýndir og boðað til fundar – „Virtist frekar miða að því að vega að heiðri forsvarsmanna félagsins“

FH útskýrir sitt mál: Fjölmiðlar harðlega gagnrýndir og boðað til fundar – „Virtist frekar miða að því að vega að heiðri forsvarsmanna félagsins“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sigurjón hæðist að Guðlaugi – „Þetta kalla ég að miklast af litlu sem engu“

Sigurjón hæðist að Guðlaugi – „Þetta kalla ég að miklast af litlu sem engu“