fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024

Tveir íslenskir fjallgöngumenn týndust í Himalaja: „Góðir strákar og frábærir félagar“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 15. apríl 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

  1. október árið 1988 er minnst sem eins mesta sorgardags íslenskrar fjallamennsku. Þá hurfu sporlaust tveir 27 ára gamlir menn, Kristinn Rúnarsson og Þorsteinn Guðjónsson, við klifur á fjallinu Pumo Ri í Himalajafjöllunum. Sú hlið fjallsins sem þeir völdu var óklifin og talið var í fyrstu að þeir hefðu farist á leiðinni upp. Jón Geirsson sem var með Kristni og Þorsteini í för en þurfti frá að víkja vegna veikinda, ræddi við DV um leiðangurinn og óvæntar upplýsingar sem bárust honum síðar.
Kristinn í Perú 1985. mynd: Torfi Hjaltason

„Original“ strákar og frábærir félagar

Þorsteinn og Kristinn voru æskufélagar úr Laugarnesskólanum og byrjuðu á unglingsárunum að ganga á fjöll. 19 ára gamlir fóru þeir í sína fyrstu Alpaferð og eftir það var ekki aftur snúið. Þeir voru ókvæntir en Kristinn átti kærustu sem bar fyrsta barn þeirra undir belti þegar slysið varð. Jón segir:

„Þetta voru góðir strákar og frábærir félagar. Ég hafði klifið með þeim síðan 1982, í Andesfjöllunum í Perú, Ölpunum og víða innanlands. Þeir byrjuðu í klifri á svolítið sérstakan hátt. Á meðan aðrir lærðu klifur í námskeiðum þá lærðu þeir þetta tveir saman á eigin vegum og voru sjálflærðir. Þeir voru „original“ og vildu frekar klæðast í lopapeysum en þeim nútímaklæðnaði sem flestir aðrir klifu í.“

Pumo Ri er í norðausturhluta Nepal, aðeins nokkra kílómetra frá hæsta fjalli veraldar, Everest. Heitið er sjerpneskt og myndi þýðast sem „dóttir fjallanna“. Bandaríkjamaðurinn Gerhard Lenser komst fyrstur á topp Pumo Ri árið 1962 en fjallið rís 7.161 metra yfir sjávarmáli. Árið 1988 hafði ísbrekkan á suðausturhrygg fjallsins aldrei verið klifin.

Af hverju varð þessi tindur, Pumo Ri, fyrir valinu?

„Hópurinn okkar í Alpafélaginu hafði verið á Gangapurna, vestar í Nepal, á árið áður og okkur fannst ekki ganga nógu vel. Kiddi þurfti að hætta við og fljúga heim með kærustu sinni sem veiktist. Við vorum í erfiðum aðstæðum og miklum snjó. Monsúntíðin kom óvenju snemma með mikilli ofankomu sem gerði út um áformin um að klífa fjallið. Við vorum svekktir og langaði að reyna aftur en þá annars staðar í Himalajafjöllum.“

Breyttu um stefnu

Fimm íslenskir fjallgöngumenn reyndu við tind Gangapurna árið 1987. Þrír úr félaginu héldu aftur til Nepal ári síðar, Jón, Kristinn og Þorsteinn. Fjórði maðurinn, Stephen Aisthorp frá Bretlandi, bættist í hópinn en hann hafði klifið með Þorsteini áður. Félagarnir hittu hann í höfuðborginni Katmandú í september og héldu síðan til fjallsins. Þann 1. október voru þeir komnir í 5.300 metra hæð og reistu þar búðir.

Göngumenn þurfa að aðlagast loftslaginu í slíkri hæð og dvöldu þeir í viku í búðunum en þá kom upp vandamál. Klifurhópur frá Ástralíu var á undan þeim að fara hina hefðbundnu suðvesturleið á toppinn sem þeir hugðust fara. Þetta hefði kostað tafir á leiðangrinum og ákváðu þeir því að fara upp ísbrekku á suðausturhryggnum, sem ekki hafði verið klifin áður.

Voru þið ekkert smeykir við að fara þá leið?

„Jú, auðvitað vorum við smeykir, þetta var ókunnugt land og ég veit ekki til þess að nokkur hafi reynt við þennan hrygg áður. En þetta er hluti af íþróttinni og okkur langaði til að klifra á þessu svæði.“

Hvernig voru aðstæðurnar?

„Þær voru góðar, sérstaklega miðað við Gangapurna-leiðangurinn. Það var kalt en snjóaði ekki og veður almennt gott.“

 

Jón og Stephen gátu ekki haldið áfram

Þrátt fyrir það lenti hópurinn í vandræðum á leiðinni upp en þá vegna líkamlegra eymsla bæði Jóns og Stephens. Stephen átti í erfiðleikum með að aðlagast lofthæðinni, var orkulaus og með iðrakveisu. Jón veiktist af miklum hósta sem hann losnaði ekki við. Urðu þeir báðir frá að hverfa fyrir síðasta spölinn upp hrygginn.

„Hóstinn var svo mikill að ég rifbeinsbrotnaði. Ég fór niður að litlu þorpi þar sem ég komst til læknis. Eftir það fór ég aftur að búðunum en sá að ég var orðinn of slæmur til að komast alla leið á toppinn. Mér var mjög illt í brjóstholinu og var kominn með risastóran marblett yfir allan brjóstkassann. Ég reyndi að binda utan um mig til að halda þessu saman en gat ekkert reynt á mig.“

Stephen varð eftir í búðunum en Jón fór til byggða og flaug í kjölfarið til Parísar og lagðist inn á spítala þar. Kristinn og Þorsteinn ákváðu þá að klífa tveir upp efsta hluta fjallsins þann 14. október og áætlað var að það tæki þrjá daga. Erfiðasti hlutinn yrði brött ísbrekka en eftir hana væri hægt að hvíla sig vel og leiðin á toppinn greið. Þeir voru ekki með tjöld heldur góða svefnpoka, hlífðarpoka og hlýjar dúnúlpur. Ekki höfðu þeir orðið varir við nein snjóflóð en smá grjóthrun vegna sólbráðar á morgnana.

„Fjalladóttirin“ Pumo Ri

Sáust við toppinn

Klif Kristins og Þorsteins virtist ganga ágætlega og Stephen fylgdist með frá búðunum með sterkri aðdráttarlinsu. Klukkan tvö eftir hádegi þann 18. október sá hann þá í 6.600 til 6.700 metra hæð en þá fóru þeir í hvarf. Þetta var í síðasta skiptið sem hann sá þá og sá tími sem miðaður er við að þeir hafi horfið. Það var þó ekki fyrr en daginn eftir sem Stephen fór að gruna að ekki væri allt með felldu og sendi hlaupara til byggða til að biðja um aðstoð við leit.

Er eitthvað vitað hvað gerðist?

„Ég var farinn úr landi og tók ekki þátt í leitinni en það fannst ekkert. Þeir hafa líklega verið bundnir saman og hrunið einhvers staðar, mögulega ofan í sprungu.“

Í fréttaflutningi á þeim tíma virtist gert ráð fyrir því að Kristinn og Þorsteinn hefðu orðið fyrir óhappi á leiðinni upp á toppinn. Jón segir að það sé ekki endilega öruggt því um mánuði eftir leiðangurinn fékk hann óvænt símtal.

„Vinkona mín kom mér í samband við einn mann úr ástralska leiðangrinum sem var á fjallinu á sama tíma og við. Hann sagðist hafa fylgst með Kristni og Þorsteini og séð þá alveg við toppinn.“

Þannig að þeir hafa komist fyrstir á toppinn?

„Það lítur út fyrir það miðað við þessa frásögn og slysið hafi því gerst á niðurleiðinni. Það eru mestar líkur á því að þeir hafi ætlað að fara sömu leið niður en það er ekkert öruggt í þeim efnum.“

Þorsteinn í Perú 1985. Mynd: Torfi Hjaltason

Lamandi áhrif á íslenska fjallamenn

Stephen leitaði eins og hann gat dagana eftir hvarfið. Eftir fjóra daga, þann 22. október, kom loks leitarþyrla en hún fann hvorki farangur né nein ummerki um þá. Aftur var flogið fjórum dögum síðar en án árangurs.

Hvaða áhrif hafði þetta á íslenska fjallamenn?

„Þetta var heilmikið áfall. Þeir voru svo duglegir, drífandi og metnaðarfullir bæði í leiðöngrum og í starfi Alpafélagsins. Í félaginu var mjög náinn og samhentur hópur á þessum tíma og þetta hafði lamandi áhrif. Sjálfur flutti ég til Frakklands og þar missti ég félaga líka. Síðan þá hef ég ekki farið í svo stóra leiðangra heldur einbeitt mér að áhættuminna klifri.“

Kristinn og Þorsteinn eru ekki einu Íslendingarnir sem hafa farist á Pumo Ri. Ari Gunnarsson, þrítugur sjómaður, fórst þar í slysi árið 1991 en hann var í för með erlendum hóp.

 

Þorsteinn, Jón, Kristinn og Anna Lára Friðriksdóttir á tindi Alpamayo í Perú. Mynd: Torfi Hjaltason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Virðist opna dyrnar fyrir komu Pogba – ,,Vil vera með sigurvegara í mínu liði“

Virðist opna dyrnar fyrir komu Pogba – ,,Vil vera með sigurvegara í mínu liði“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Ekkert til í því að Pogba hafi heimsótt æfingasvæðið í Manchester

Ekkert til í því að Pogba hafi heimsótt æfingasvæðið í Manchester
Pressan
Fyrir 20 klukkutímum

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi

Skógarbjörn varð 58 ára föður og afa að bana í furðulegu slysi
Pressan
Fyrir 20 klukkutímum

Þetta áttu aldrei að geyma í fataskápnum

Þetta áttu aldrei að geyma í fataskápnum