Í marsmánuði árið 1994 kom hingað til lands bandarískur karlfatafelluflokkur sem nefndist American Male. Flokkurinn var skipaður fjórum körlum sem vaxnir voru líkt og grískir guðir og fækkuðu fötum uns þeir stóðu á pínubrókum einum saman. Ferðast var með sýninguna víða um land, svo sem í Sjallann á Akureyri, Kántrýbæ á Skagaströnd og út í Vestmannaeyjar. Mesta athygli vöktu þó kvöldin sem haldin voru á Hótel Íslandi. Það var Kvennaklúbburinn sem sá um sýningarnar þar og var karlmönnum óheimill aðgangur. Mikill æsingur myndaðist í salnum og sumar konur hreinlega réðu ekki við sig og reyndu að snerta kyntröllin og lauma peningum í skýlurnar.