Bryan Thornhill, bandarískur faðir, hefur vakið reiði margra eftir að hann birti myndband af því þegar hann refsaði syni sínum.
Þannig er mál með vexti að sonur hans, Hayden, 10 ára, hafði hagað sér illa í skólarútunni sem varð til þess að honum var vísað úr rútunni í þrjá daga. Bryan brá á það ráð að láta son sinn hlaupa í skólann þessa þrjá daga – og til að sjá til þess að hann myndi hlaupa í skólann ákvað Bryan að fylgja honum eftir á bifreið sinni.
Daginn sem meðfylgjandi myndband var tekið var rigning og veður ekkert sérstakt. En þar sem Hayden hafði sýnt litlu systur sinni dónaskap daginn áður fékk hann að fara á tveimur jafnfljótum í skólann – þrátt fyrir leiðindaveður.
Margir hafa gagnrýnt Thornhill fyrir uppátæki sitt og bent á það að refsingar af þessu tagi hjálpi ekki til við að ala upp hamingjusöm og sjálfsörugg börn. Eitt sé að framkvæma svona og annað að birta einnig myndband af drengnum þar sem niðurlægingin er fullkomnuð. Hvað sem því líður segist Thornhill í myndbandinu standa fastur á þeirri skoðun að gamaldagsuppeldi sé það sem þarf nú til dags.
„Þetta drepur engan. Þetta er heilbrigð leið til að refsa barni. Þetta kallast uppeldi,“ segir hann.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Er þetta góð leið til að kenna börnum lexíu? Myndbandið má sjá hér að neðan.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=AF73pJMPO8o&w=560&h=315]