Starf fjölmiðlamanna getur verið erfitt en fáir hafa fengið jafn erfitt viðfangsefni og þeir Helgi Pétursson og Andy Lewis fengu í hendurnar. Helgi tók viðtal við dansarann Gunnlaug Guðmundsson árið 1975 og Andy við leikarann Jerry Lewis rúmum fjörtíu árum síðar. Lesendur geta horft hér á viðtölin og, ef þeir þrauka í gegnum þau, metið hvort sé vandræðalegra.
Helgi Pétursson ræddi við Gunnlaug Guðmundsson í þættinum Anna í Hlíð í Sjónarpinu. Gunnlaugur var að eigin sögn einn af bestu dönsurum í gömlu dönsunum og dró ekkert í land með það. Helgi spurði um þróun gömlu dansana sem Gunnlaugur taldi vera í mikilli hnignun. Gunnlaugur var fullur sjálfstraust og greip fram í í hverri einustu spurningu sem Helgi bar upp. Athygli vekur að í lokin tók Gunnlaugur upp bórsýru sem er mjög varasamt efni, en þessari sýru smurði hann ævinlega á dansgólfið áður en sýndi listir sínar. Undir lok viðtalsins var Helgi farinn að dæsa en Gunnlaugur að glotta líkt og hann væri að leika sér að spyrlinum. Gunnlaugur, sem var um sjötugt á þessum tíma, lést skömmu eftir viðtalið. Samkvæmt bloggsíðu Dr. Gunna, gekk hann í sjóinn.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=ZlUIcdeY2cs&w=560&h=315]
Andy Lewis, ritstjóri hjá The Hollywood Reporter, tók viðtal við hinn goðsagnakennda grínista og leikara Jerry Lewis árið 2016. Jerry, sem var níræður, fór hins vegar í vont skap í ljósmyndatökunni fyrir viðtalið sjálft og fannst of mikið af fólki og búnaði komið inn á heimili sitt. Hann varð reiðari og reiðari og þegar kom að viðtalinu sjálfu var því orðið sjálfhætt. Strax í fyrstu spurningu sást í hvað stefndi. Viðtalið er um sjö mínútur að lengd og Jerry svaraði flestu stutt og með skætingi eða þá af algjöru áhugaleysi. Undir lokin stóð hann upp og skipaði tökuliðinu að fara með allt draslið út. Viðtalið reyndist vera hið síðasta sem hann gaf en hann lést 20. ágúst síðastliðinn.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=s8SfWiNhTJo&w=560&h=315]