Trúðu á yfirburði hvíta kynstofnsins – Faðir og stjúpa á meðal fórnarlambanna
Pacific Northwest-drápin í Bandaríkjunum hófust 26. september árið 2011. Gerendur voru Holly Grigsby og kærasti hennar, David Pedersen.
Þannig var mál með vexti að David sagði Holly að hann langaði til að hefja byltingu og beina spjótum sínum að leiðtogum gyðinga.
Ljóst er að grunnt hefur verið á kynþáttafordómum hjá David því hann hefur síðan fyrrnefndir atburðir áttu sér stað komið á laggirnar fangelsisgengi sem samanstendur af mönnum sem trúa á yfirburði hvíta mannsins. En það er önnur saga.
Skötuhjúin hófust, sem fyrr segir, handa 26. september árið 2011. Þau höfðu farið til föður Davids og stjúpmóður í Washington-ríki og varið þar nokkrum dögum. Faðir Davids, Red, var að rúnta með David og Holly þegar David skaut hann í höfuðið. Red gaf ekki upp öndina fyrr en að hálftíma liðnum, en David og Holly óku heim til hans.
Þar var stjúpmóðir Davids, Leslie Mae „Dee Dee“ Pedersen og átti sér einskis ills von. Dee Dee var bundin með einangrunarlímbandi og síðan skorin í hálsinn og blæddi út.
Systir Davids, Holly Perez, sagði síðar: „Meðferð á skepnum á leið til slátrunar er mannúðlegri en sú sem fórnarlömb ykkar fengu.“
Síðan fór parið, á bifreið föður Davids, til Oregon. Þar varð á vegi þeirra 19 ára piltur, Cody Faye Myers. Þau skutu hann til bana og stálu bíl hans. Samkvæmt framburði þeirra síðar meir myrtu þau Cody Faye Myers vegna þess að þeim fannst nafn hans gyðingslegt. Cody sem reyndar var kristinn hafði verið á leið heim af tónleikum og boðið Holly far.
Nú lá leið Davids og Holly til Norður-Kaliforníu þar sem þau skutu til bana 53 ára blökkumann, Reginald Alan Clark sem, líkt og Cody, hafði tekið þau upp í bíl sinn.
Þann 5. október, 2011, voru David og Holly handtekin fyrir utan Yuba City í Kaliforníu. Að sögn Holly voru þau þá á leið til Sacramento til að „drepa fleiri gyðinga“.
Við réttarhöldin, árið 2014, baðst Holly afsökunar á gjörðum sínum en ekki skoðunum. Hún sagði meðal annars: „Gjörðir mínar hafa enn fremur skaðað orðstír hreyfingar sem fyrir er misskilin. Ég sé mikið eftir þessu.“
David Pedersen játaði sig sekan um tvo bílþjófnaði með banvænum afleiðingum fyrir Cody Myers og Reginald Clark. Í Washington-ríki, hafði hann áður játað að hafa myrt föður sinn, Red, og stjúpmóður, Dee Dee.
Skötuhjúin fengu bæði lífstíðardóm, Holly í júlí 2014 og David mánuði síðar.