Ansi snjallt úrræði til að halda ólmum viðskiptavinum frá veigunum
Á Írlandi er öllum búðum og börum óheimilt samkvæmt lögum að selja áfengi á föstudaginn langa.
Venjulega þurfa búðir ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna þessa, þær einfaldlega selja engar veigar þennan dag.
En stjórnendur stórmarkaðarins SuperValu kenndi greinilega í brjósti um bjórþyrsta viðskiptavini sína og greip til þess ráðs að girða af alla áfengisdeild verslunarinnar – með klósettpappír! Vefurinn Irish Mirror greinir frá.
Já, klósettpappír! Í versluninni gat að líta heilu virkisveggina samsetta úr uppstöfluðum pökkum af klósettpappírsrúllum. Úrræðið hefur vakið þónokkra athygli meðal almennings, sem deilir ákaft myndum af virkinu á Twitter.
Víst er að veggurinn er nógu hár til að áfengissnauðir Írar þurfi ekki að horfa upp á freistingarnar. En sennilega var ekki talið nóg að byrgja viðskiptavinum sýn, ætla mætti að verslunin hafi pælt í fleiru við valið á byggingarefni.
Viðskiptavinir geta auðvitað hæglega gripið sér rúllu og þerrað tárin – séu þeir sárir yfir áfengissveltinu!