„Þarna má sjá upp Bankastræti, Lækjargötu og Austurstræti. Þessi mynd er tekin árið 1943, fyrir 73 þremur árum síðan,“ segir Kristján Hoffmann sem deildi mynd í grúppuna Gamlar ljósmyndir á Facebook. Myndin hefur vakið mikla athygli og vilja sumir meina að á myndinni megi sjá tímaflakkara halla sér upp að einni versluninni og tala í farsíma.
Kristján segir í samtali við DV að honum hafi áskotnast diskur með gömlum ljósmyndum sem var í eigu fjölskyldunnar. Fjölskyldan átti þó ekki upprunalegu myndina.
Þegar Kristján deildi myndinni á Facebook sagði hann:
„Bandaríski herinn yfirtekur íslenskan glæsileika eins og sést. Eitt vekur athygli á þessari fallegu mynd er að uppað glugganum, á horninu á miðri mynd, hallar sér maður og er í GSM.“
Sumir vilja meina að maðurinn sé að klóra sér, aðrir segja að hann haldi á pípu eða sé athuga hvort úrið sitt virki.
„Ég veit ekki hvað skal segja, ætli hann sé ekki bara að tala í símann,“ segir Kristján glettinn og bætir við: „Hann stingur í stúf, stendur einn og er með öðruvísi höfuðfat en hinir og trefil og hagar sér eins og við myndum gera í dag. Hann hefur yfirsýn yfir torgið og engu líkara en hann eigi í samræðum við einhvern í snjallsíma.“
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur tjáir sig um myndina og segir:
„Ekki að spyrja að Íslendingum. Búnir að finna upp gsm langt á undan öðrum!“
Þá tekur tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens til máls á léttu nótunum og telur sig hafa skorið úr um hvað þarna eigi sér stað:
„Fór með stækkunargler á þetta maðurinn er með síma þá er spurning þessi er þetta ekki tímaferðlangur?,“ segir hann kíminn.
Ekki er niðurstaða þó fengin í málið og spurt er: Hvað er maðurinn með í hendinni.