Vandræðalegt atvik átti sér stað í morgunþætti breska ríkissjónvarpsins BBC Breakfast. Annar kynnir þáttarins, Naga Munchetty, tilkynnti sjónvarpsáhorfendum að von væri á skoska forsætisráðherranum Nicola Sturgeon í þáttinn. Tilgangur heimsóknarinnar væri sá að ræða möguleikann á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Í stað þess að sýna mynd af Sturgeon blasti við myndskeið af annarri sjálfstæðishetju, górillunni Kumbuka, sem nýlega braust út í frelsið úr dýragarðinum í London. Af myndskeiðinu að dæma hafði Kumbuka engan áhuga á að ræða sjálfstæði Skotlands.
Meðstjórnandi Munchetty, sjónvarpsmaðurinn Charlie Stayt áttaði sig strax á mistökunum og baðst afsökunar á þeim. . Skömmu seinna birtist Sturgeon sjónvarpskjá í símaviðtali og þátturinn hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist, að því undanskildu að þáttastjórnendur áttu erfitt með að halda aftur af hlátrinum.
Í tilefni þessarar skemmtilegu uppákomu rifja erlendir fréttamiðlar upp atvik þar sem veðurfréttamaðurinn Simon McCoy greip pakka af prentpappír í misgripum fyrir ipad-inn sinn og ríghélt í pakkann í útsendingunni þrátt fyrir að lítið gagn væri af honum.