Sögusagnir þess efnis að athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hafi gerst sekur um ósæmilega framgöngu í veiðiferð sem hann fór í 17. júní í sumar í Haffjarðará með þeim afleiðingum að honum hafi verið vísað úr ánni virðast ekki ætla að deyja út þrátt fyrir að eigandi Haffjarðarár, Óttar Yngvason og Björgólfur sjálfur neiti fyrir að nokkuð ósæmilegt hafi gerst.
Blaðamaður DV hitti á Björgólf síðsumars þegar sögusagnirnar flugu hvað hæst og spurði hann út í málið. Kvaðst Björgólfur ekki kannast við málið, en varð þó tvísaga þegar hann viðurkenndi að hafa heyrt eitthvað af málinu. Hann sagði það ekkert nýtt að sögusagnir væru á kreiki um sig. DV hefur staðfestar heimildir lík og áður hefur komið fram, fyrir því að aðilar sem skemmta áttu þremenningunum í ánni hafi verið afbókaðir með stuttum fyrirvara og ástæður afbókaninar hafi verið þunnar, var þar borið við Covid. Ritstjóri DV spurði Óttar út í málið í ágúst, sem sagðist ekki kannast við það. Ekkert skemmtanahald hefði fylgt þessum mönnum og ekkert verið öðruvísi en það átti að vera og þeir hafi ekki farið fyrr en áætlað var.
„Ég kannast ekki við neitt skemmtanahald. Það hefur aldrei verið á vegum þessara manna,“ segir Óttar en sem áður segir hefur fengist staðfest að sóst var eftir söngskemmtun í Haffjarðará á þessum tíma.
Nú er svo komið að tvö bresk götublöð eru að rannsaka málið og hafa ýmsir aðilar fengið símtöl frá breskum blaðamönnum. Tengsl Björgólfs við fótboltahetjuna David Beckham og leikstjórann Guy Richie sem voru með í för í ferðinni umdeildu vekja áhuga gulu pressunnar.