Flestar konurnar vildu nefnilega að það störfuðu fleiri konur á DV – bara ekki þær sjálfar.
Það er eitt að vilja fleiri konur í valin störf en þær verða að vilja það sjálfar. Það er ekki hægt að ætlast til þess að kvótar séu fylltir hér og þar ef áhuginn fyrir starfinu er ekki til staðar hjá þeim, sem æskilegt er að sæki um.
Í dag er sem betur fer staðan allt önnur.
Hjá DV og dv.is er meira jafnvægi í kynjaskiptingu en gengur og gerist á flestum fjölmiðlum í landinu. Ritstjóri DV, fréttastjóri og sú sem brýtur um blaðið eru konur. Próförkin hjá DV skartar einungis konum. Forstjóri Torgs, sú er stýrir mannauðsmálum og fjármálastjóri eru konur. 50% ritstjórnarinnar eru konur.
Ég fæ reglulega gagnrýni á að það sé verið að upphefja karlmenn á kostnað kvenna á miðlinum sem ég stýri. Samfélagið í heild þarf sannarlega að rétta stöðu kvenna – en það er mikilvægt að velja sér orrustur svo að þær missi síður marks og það er enginn í stríði gegn konum hér. Þvert á móti.
Ég sem er ritstjóri blaðsins á tvær ungar stúlkur. Í hvaða heimi myndi ég reyna að ýta undir samfélag þar sem hallar enn frekar á þær? Það er óþarfi að sparka í þann sem hleypur þér við hlið með útrétta hönd. Það er leitt þegar þörfin fyrir baráttuna er meiri en fyrir heildstæðan árangur.
Leiðari þessi birtist í helgarblaði DV sem kemur út í dag, 21 ágúst.