Leiðari DV 23. október 20202
Það að er áhugavert að rifja upp fyrstu kynni sín af fólki þegar lýsa á viðkomandi. Rifja upp hvernig það var að sjá manneskjuna bara utan frá.
Ég kynntist forsíðuviðtalsefni blaðsins, Stefáni Mána Sigþórssyni, fyrir rúmlega níu árum í stórskemmtilegum upplestrarleiðangri til Ólafsvíkur fyrir jólin.F yrstu kynni okkar Stefáns voru ekkert sérstaklega góð.
Þau voru mjög löng, spönnuðu hátt í 400 kílómetra og enduðu mun betur en á horfðist.
Stutta útgáfan er þessi. Rithöfundarnir Stefán Máni, Þorgrímur Þráins, Vigdís Grímsdóttir, Pétur Blöndal, þá blaðamaður hjá Mogganum, og Eggert Jóhannesson ljósmyndari og ég keyrðum saman til Ólafsvíkur til að bjóða upp á upplestur og heimsækja grunnskólann þar.
Ég var 26 ára, barnlaus og óþreytandi uppspretta kátínu og óþægilegra sagna úr miðborginni. Stefán Máni var á hátindi þess að vera dökkur, drungalegur og erfiður. Ég sá hvernig hann engdist um undir stýri við hverja söguna sem ég sagði.
Þorgrímur sat í skottinu og hvatti mig áfram í gleðisprengjunum enda sjálfur eitt stórt bros og gleði.
Í dag vill SMS meina að þyngslin í sér hafi nú aðallega verið vegna þess að honum finnst vont að keyra í hálku, snjó og byl úti á landi. Ég held að djamm- og deitsögurnar af okkur vinkonunum hafi valdið honum töluverðum óþægindum.
Ég reyndi að horfa ekki í bílstjóraspegilinn. Vildi ekki mæta dökkum augunum. Ég gæti dottið úr stuði.
Ferðin gekk vel. Upplesturinn mjög vel. Og svo var öllum boðið í jólaveislu heim til foreldra SMS. Þau búa í dásamlegu húsi rétt fyrir utan Ólafsvík. Húsið var allt í jólaljósum, hangikjötslyktina lagði út á hlað og ekki var rauðvínið sparað.
Þar, í jólalegasta húsi landsins, rættist martröð myrka mannsins.
Ég sagði foreldrum hans að í nýútkominni bók minni væri listi yfir álitlega einhleypa menn og drengurinn þeirra væri númer sjö. Ég myndi reyna að gera eitthvað í hans málum sem fyrst.
Hafandi stýrt Djúpu lauginni (reyndar urðu ekki til nein pör á minni vakt) þótti mér eðlilegt að reyna að bjarga þessum manni frá hyldýpi ástlausrar ævi.
Viti menn.
Svartnættið missti út bros við að hlusta á ræðu mína.
Á leiðinni heim lenti ég í vanda því ég hafði hugsanlega fengið mér smá jólabjór hjá mömmu SMS og var nú í spreng. Mér fannst það að biðja Stefán um að stoppa svo ég gæti pissað í skafl ekki spennandi.
Eitthvað hef ég verið eymdarleg því SMS keyrði fljótlega út í kant.
Hlýlega stjakaði hann mér út í skafl.
„Ekki detta.“
ps: Sökum ástands er ekkert annað í stöðunni en að flýta desember um mánuð og hafa hann í tvo mánuði. Jólabjórinn kemur fyrr í verslanir og ég held að konfekt og seríur séu það eina sem reddar myrkri og ömurð. Ég er allavegabúin að skreyta.