fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Leiðari

Frá einu foreldri til annars

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 17. janúar 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Foreldrahlutverkið er líklegast erfiðasta hlutverkið sem mannfólkið glímir við. Það tekur á að koma börnum til manns, það dylst engum. Fyrstu árin þarf að kenna barninu muninn á réttu og röngu. Það þarf að kenna því að borða, klæða sig, sýna kurteisi og reyna að vekja þá samkennd sem býr innra með því. Svo tekur við tímabil þar sem fræðslan verður flóknari og umhyggja foreldra felst einna helst í því að taka óvinsælar ákvarðanir sem eru barninu fyrir bestu – þótt barnið sjálft sjái það ekki alltaf þannig. Unglingsaldurinn rýkur á dyr með öllum sínum ofsa og þá vandast málin. Sjálfstæður unglingur lætur illa að stjórn og þá er mikilvægast fyrir foreldra að vera til staðar ef eitthvað bjátar á. Loks taka fullorðinsárin við og þá verða foreldrar að sleppa takinu, leyfa „litla barninu“ sínu að fljúga og taka sínar eigin ákvarðanir, gera sín eigin mistök.

Eitt eiga öll þessi æviskeið sameiginlegt. Áhyggjur foreldra af börnunum sínum hverfa aldrei. Við foreldrarnir höfum gengið í gegnum um það bil allt sem þessi blessuðu börn glíma við og því reynist þrautinni þyngri að skerast ekki í leikinn og hafa vit fyrir þeim öllum stundum.

„Eina sem börn þurfa er ást og umhyggja,“ sagði góð ljósmóðir við mig þegar ég var nýbúin að eignast mitt fyrsta barn. Ég var ósofin og taugaveikluð yfir öllu og engu. Hafði eytt þremur dögum í að spá hvort hvítvoðungurinn ætti að vera í sokkum eða ekki. Yrði barninu of heitt í sokkum? Hvað ef það væri berfætt heima í fanginu mínu, gæti því orðið of kalt þannig að það myndi veikjast? Hvar fengi ég eiginlega sokka fyrir svo smáar fætur? Stóra sokkamálið tók yfir veröld mína og þegar ljósmóðirin sótti mig loks heim brast ég í grát yfir vanmætti mínum því ég vissi ekkert um ungbarnasokka. Þessi setning hennar bjargaði mér frá fullkomnu þroti. Auðvitað væri þetta ekkert flókið. Ást og umhyggja – það er allt sem þarf, í sokkum eða án. Þegar ég lít til baka finnst mér það náttúrulega stjarnfræðilega fáránlegt að eitthvað svo veigalítið sem tvær sokkapjötlur hafi ollið mér þessu hugarangri, en þessir frægu sokkar voru bara fyrstu af ótal álitamálum sem hafa haldið fyrir mér vöku í gegnum tíðina.

En hvað ef ást og umhyggja er ekki nóg? Það er spurning sem ég spyr mig oft að. Sú spurning leitaði enn og aftur á mig þegar fréttir af hræðilegu morði á Spáni bárust til Íslands. Málið er enn í rannsókn en sá grunaði virðist hafa ráðist á sambýlismann móður sinnar með þeim afleiðingum að hann lést. Að sögn móðurinnar var það örvæntingarfull leit sonarins að peningum fyrir „eitrinu“, fíkniefnum, sem heltók hann.

Hinn grunaði heimsótti ritstjórnarskrifstofu DV fyrir nokkrum mánuðum og vildi eiga við mig einkasamtal. Margt sem fór okkar á milli er trúnaðarmál, eins og hinn grunaði fór fram á. Það mun ég virða. Honum var mikið niðri fyrir og hann var hræddur um líf sitt. Ætlaði að flýja land og reyna að skapa sér betra líf einhvers staðar annars staðar. Hann var, líkt og fólk sem fíkniefnin gleypa, með samsæriskenningar á færibandi, svo margar að erfitt var að skilja á milli raunveruleika og vímu. Hann sló mig sem góður maður, sem ekki aðeins hafði orðið fíkninni að bráð heldur einnig þurft að þola meiri harm á sinni ævi en flestir. Hann var einlægur og kurteis. Hann skynjaði muninn á réttu og röngu og talaði svo ofur fallega um móður sína. Hann óttaðist einnig um líf hennar og var búinn að einsetja sér að gera allt sem í hans valdi stæði til að vernda hana, mikilvægustu persónuna í lífi hans.

Eftir langt samtal, tilfinningaþrungið og oft og tíðum óþægilegt, kvöddumst við með virktum. Hann ætlaði að hafa samband aftur en svo hvarf hann út í tómið og ég sá hann aldrei meir. Nú sé ég hann eingöngu á síðum fjölmiðlanna, grunaðan um þennan hræðilega glæp. Þó að fíknin eigi sínar skuggahliðar þá getur ekkert afsakað slíkan glæp. Akkúrat ekki neitt.

Það er líklegast enginn sem skilur harm móður hins grunaða. Það er ómögulegt fyrir foreldri að setja sig í hennar spor. Ef ég missti næstum lífsþróttinn út af einu sokkapari þá get ég ekki gert mér í hugarlund hvernig er hægt að vinna úr slíku áfalli, líkt og þessi tiltekna móðir er búin að upplifa, og halda áfram með lífið.

Ég sendi henni mína sterkustu strauma, frá einu foreldri til annars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

England: Manchester City vann sterkan sigur á Chelsea eftir slæma byrjun

England: Manchester City vann sterkan sigur á Chelsea eftir slæma byrjun
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Antony farinn frá Manchester United

Antony farinn frá Manchester United
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Þessar grænmetistegundir ýta hugsanlega undir ofþyngd

Þessar grænmetistegundir ýta hugsanlega undir ofþyngd
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

England: Arsenal og Liverpool með sigra – Bournemouth burstaði Forest

England: Arsenal og Liverpool með sigra – Bournemouth burstaði Forest
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Búinn að ákveða hvert hann fer ef hann fær ekki nógu gott samningstilboð

Búinn að ákveða hvert hann fer ef hann fær ekki nógu gott samningstilboð
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Kom öllum á óvart þegar hann labbaði inn um dyrnar: Hafði lent í bílslysi stuttu áður – ,,Vorum búnir að útiloka hann“

Kom öllum á óvart þegar hann labbaði inn um dyrnar: Hafði lent í bílslysi stuttu áður – ,,Vorum búnir að útiloka hann“
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Segir að stjarnan sé ánægð hjá félaginu – Gæti orðið sá dýrasti í sögunni

Segir að stjarnan sé ánægð hjá félaginu – Gæti orðið sá dýrasti í sögunni
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli

Myndband frá bílbruna í Strýtuseli