fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Leiðari

Að „láta“ berja sig

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 10. maí 2020 21:00

Tobba Marinós Mynd: Íris Ann

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftirfarandi er leiðari Tobbu Marínósdóttur, ritstjóra DV sem birtist í nýjasta helgarblaði DV

Ósjaldan hefur besta fólk misst út úr sér: „Af hverju er hún ennþá með honum?“ og vísar með hneykslan í meint ofbeldissambönd. Ég sjálf gerði það nú síðast í morgun. Staðreyndin er sú að það er hættulega auðvelt að sogast inn í óheilbrigð sambönd. Jafnvel mestu töffarar Íslandssögunnar hafa búið við ofbeldi. 10% aukning hefur orðið á tilkynningum til lögreglu vegna heimilisofbeldis hér á landi undanfarið. Það er stríðsástand í næsta húsi.

Ég var 17 ára í fyrsta skipti sem ég upplifði „sogið“. Þegar karlmaður reynir að soga mig inn í að það að beita konu ofbeldi sé eðlilegt ástand, sjálfskapað og verðskuldað. Ég skrifaði niður þessa upplifun mína á þeim tíma og minni mig stundum á hvað það er auðvelt að standa ekki með sjálfri sér.

Ég kynntist myndarlegum manni. Hann var töluvert eldri en ég, smart til fara, með breitt bros og í eftirsóknarverðu starfi. Ég hafði heyrt einhverjar undarlegar sögur af honum og fannst frekar ömurlegt þegar hann sagði mér að halda kjafti í bíó einu sinni. En ég var ung, með lítið sjálfstraust og hélt að þetta hefði kannski bara verið djók?

Stuttu seinna biður hann mig um að sækja sig niður í bæ. Ég heyri á honum að hann er vel fullur en dríf mig af stað. Hann stekkur inn í bíl í miðbænum en ég kemst ekki lengra en að gamla Kolaportinu þegar hann er farinn að ausa yfir mig svívirðingum. Ég stoppa bílinn og skipa honum að fara út. Hann rífur af mér lyklana og læsir bílnum. Situr svo glottandi og ég sé einhvern geðveikisglampa í augunum á honum sem ég hef ekki séð áður. Ég finn innilokunarkenndina magnast upp – ég er orðin dýr í búri úti í dimmum vegarkantinum. Mér hefur aldrei fundist ég eins lítil.

Ég öskra á hann að láta mig hafa lyklana og finn hvernig ég fæ gæsahúð af hræðslu þegar hann reiðir hnefann til höggs. Ég stirðna upp og spyr hvort hann ætli að berja mig. Hann róast og lætur höndina síga og mig fá lyklana að bílnum. Ég keyri titrandi af stað en fljótlega byrjar hann aftur að öskra á mig. Ég segi ekki neitt en keyri hratt og er dauðfegin þegar ég beygi inn götuna hans. Í bræðiskasti rífur hann í stýrið og öskrar á mig: ERTU EKKI AÐ HLUSTA Á ÞAÐ SEM ÉG ER AÐ SEGJA?

Það er hávetur og glerhálka. Bíllinn skautar yfir götuna og ég rétt næ að sveigja fram hjá ljósastaur og nauðhemla. Þarna tryllist ég og skipa honum að koma sér út úr bílnum. Sem hann til allrar hamingju gerði.

Ég komst heil – en hrædd – heim og eftir nokkur sms frá honum slökkti ég á símanum.

Daginn eftir hringdi maðurinn og vildi bjóða mér út að borða. Hann var mjög hissa á að ég væri ekki til í það. Sagðist ekkert muna eftir þessu „drama“ eins og hann kallaði frásögn mína. Eftir langt símtal endaði hann á þessum orðum: „Ef þú hefðir ekki verið svona erfið hefði ég ekki þurft að æsa mig eða dangla í þig!“

Já, einmitt! Þarna voru þau komin – orðin sem soga konur inn. Ég náði að losa mig við þennan mann en ef ég hefði verið aðeins meðvirkari hefði ég kannski fallið fyrir þessu. Lengi eftir þetta langaði mig að hjálpa honum – fá hann til að skilja. Hann átti víst erfiða æsku… Þarna skildi ég hversu auðvelt það er að sogast inn í ofbeldissamband.

Stutt seinna fór hann í fangelsi fyrir að misþyrma tveimur ungum stúlkum sem ég þekki – hrottalega.

Hann hefur sent mér vinabeiðnir á Facebook sem ég afþakka pent. Ég vil ekki þurfa að verða „erfið“ við hann aftur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Fagnaði sigri í sínum 700. leik í ensku úrvalsdeildinni

Fagnaði sigri í sínum 700. leik í ensku úrvalsdeildinni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Jón Daði minnti á sig og skoraði tvennu

Jón Daði minnti á sig og skoraði tvennu
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Heppinn að vera ekki blindur eftir óhugnanlega árás: Opnaði dyrnar og fékk sýru í andlitið – ,,Hræddur í hvert skipti sem ég heyri hljóð“

Heppinn að vera ekki blindur eftir óhugnanlega árás: Opnaði dyrnar og fékk sýru í andlitið – ,,Hræddur í hvert skipti sem ég heyri hljóð“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sverrir Einar segir að dansara hans hafi verið vísað ólöglega úr landi – „Þetta er alvarlegt brot á réttindum konunnarׅ“

Sverrir Einar segir að dansara hans hafi verið vísað ólöglega úr landi – „Þetta er alvarlegt brot á réttindum konunnarׅ“
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Þessar grænmetistegundir ýta hugsanlega undir ofþyngd

Þessar grænmetistegundir ýta hugsanlega undir ofþyngd
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

England: Arsenal og Liverpool með sigra – Bournemouth burstaði Forest

England: Arsenal og Liverpool með sigra – Bournemouth burstaði Forest
Pressan
Fyrir 19 klukkutímum

Þetta eru öflugustu vegabréf heims

Þetta eru öflugustu vegabréf heims
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona notar þú Google Keep

Fræðsluskot Óla tölvu: Svona notar þú Google Keep