fbpx
Fimmtudagur 13.mars 2025
Leiðari

Æi, ég bíð með þetta til morguns

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 31. desember 2019 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég kvíði alltaf hálfpartinn fyrir gamlárskvöldi. Óttablandin ánægja fylgir þessu kvöldi og þegar vísirinn nálgast miðnætti þá verð ég svo ofboðslega meyr. Ég klökkna alltaf á gamlárskvöldi og hef gert síðan ég var unglingur. Það er ákveðin hreinsun sem fylgir því að kveðja gamla árið, þótt það hafi ekki verið neitt sérstaklega slæmt.

Ég hef átt betri ár en árið 2019 en líka miklu, miklu verri. Árið var frábært fyrir mig persónulega en arfaslæmt fyrir íslenskt þjóðfélag. Nánast í hverri viku var eitthvert hneyksli, rifrildi eða rugl hjá hinu opinbera. Það er líkt og verið hafi að búa okkur undir storminn sem var í aðsigi, sem skall á okkur í nóvember þegar að Samherjaskjölin voru opinberuð. Þá leið mér nánast illa að horfa á sjónvarpið og fylgjast með fréttum. Ég skammaðist mín fyrir að vera Íslendingur. Ef það væri í fyrsta sinn sem það hefði gerst gæti ég kannski komist yfir það, en atvikin sem hafa framkallað þessa skömm síðasta áratuginn eða svo eru einfaldlega orðin það mörg að mér fannst ég ekki geta meira.

Þegar ég svo hélt að nú væri komið að því – loksins gæti öll þjóðin látið reyna á samtakamátt sinn og sameinast um það að framferði Samherja á erlendum vettvangi væri siðlaust í besta falli – að við yrðum loksins öll sammála um þetta, nema náttúrlega nokkrir Samherjar í brúnni. Nei, það þurfti að rífast um þetta líka. Rífast um tæknileg atriði eins og fjármagn til rannsóknar. Afvegaleiða umræðuna um kvótakerfið og samt halda því til streitu að við værum bara í toppmálum og með besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Finnast það galið að besti vinur aðal, sjálfur sjávarútvegsráðherra, væri bendlaður við mútur, spillingu og græðgi. Alveg fráleitt. Hann situr enn og er ekkert á leiðinni annað. Hann metur sitt eigið hæfi þannig, að þótt hann hafi hringt í höfuðpaurinn í Samherjaskjölunum og spurt hann hvernig honum liði, líkt og góður vinur myndi gera þegar eitthvað bjátaði á, nánast samstundis og ljóstrað var upp um svínaríið, þá sé honum alveg sætt áfram. Í krafti kjósenda. Alltaf gleymist það að kjósendur kjósa ekki fólk – þeir kjósa flokka. Það þarf svo margar útstrikanir í núverandi kosningakerfi að það er ólíklegt að útstrikanir hafi nokkurt einasta vægi hvort sem er. Þingmenn sitja því ekki á þingi í krafti kjósenda sinna heldur flokkarnir. Gleymum því aldrei.

Og þetta hangir yfir þjóðinni, þetta blessaða mál, er við kveikjum á stjörnuljósunum og kyssum þá sem standa okkur næst rembingskossi. Þökkum fyrir liðið ár og óskum velfarnaðar á því nýja. Förum kannski í gamlárspartí og drekkum of mikið af kampavíni. Eða sofnum í sófanum, umkringd skítugum diskum, konfetti úti um allt. Það má bíða, hugsum við.

En Samherjaskjölin og sú viðamikla rannsókn má ekki bíða. Við þurfum að fá botn í þetta mál og hvert þræðir þess liggja. Ég vona að forsætisráðherra fullvissi þjóðina um það að kvöldi gamlársdags að öllum steinum verði velt í þessari rannsókn. Ég vona að hún blási okkur í brjóst kjark og trú eins og sönnum þjóðarleiðtoga sæmir. Hún má nefnilega ekki sofna í sófanum, umkringd skítugum beinagrindum í misjöfnum skápum og hugsa: Æi, ég bíð með þetta til morguns.

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur, og takk fyrir það gamla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi

Einn handtekinn til viðbótar vegna morðrannsóknar á Suðurlandi
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Látbragð Vini Jr í gær vakti mikla athygli – Fór illa í marga

Látbragð Vini Jr í gær vakti mikla athygli – Fór illa í marga
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Dósasöfnun fótboltadrengja stolið –  „Þetta var mjög sárt fyrir þá, þetta er ekkert smá mikil vinna fyrir svona unga stráka“

Dósasöfnun fótboltadrengja stolið –  „Þetta var mjög sárt fyrir þá, þetta er ekkert smá mikil vinna fyrir svona unga stráka“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Halla Gunnarsdóttir sigraði með 46% atkvæða

Halla Gunnarsdóttir sigraði með 46% atkvæða
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Alex Freyr skrópaði á æfingu á Spáni – „Það er óásættanlegt“

Alex Freyr skrópaði á æfingu á Spáni – „Það er óásættanlegt“
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Bestu vinkonur byrjuðu á sitthvoru þyngdartapslyfinu – Gjörólíkar upplifanir

Bestu vinkonur byrjuðu á sitthvoru þyngdartapslyfinu – Gjörólíkar upplifanir