Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér álit í deilumáli eiganda eignarhluta í fjölbýlishúsi, í ónenfndu sveitarfélagi, við húsfélag hússins. Húsið er í stærra lagi en það skiptist í 71 eignarhluta. Hinn ósátti eigandi krafðist þess að lagt yrði fyrir húsfélagið að afhenda honum gögn um hvaða aðrir eigendur í húsinu hefðu fengið bótagreiðslur frá verktökum vegna galla í íbúðum þeirra og í hvaða íbúðum hefði verið skipt um glugga. Sagði hann formann húsfélagsins hafa neitað að afhenda honum þessi gögn og að honum hafi ekki staðið slíkar bótagreiðslur og gluggaskipti til boða en eigandinn ósátti segir augljósa galla vera á sinni íbúð.
Eigandinn krafðist þess að viðurkennt yrði að húsfélaginu bæri að upplýsa hvaða eigendur hafi fengið bætur samkvæmt samkomulagi frá 6. júní 2023 við þrjá verktaka, sem og um fjárhæðir bótanna.
Ennfremur að viðurkennt yrði að húsfélaginu bæri að upplýsa hvaða íbúðir hafi notið þess að skipt hafi verið um glugga í þeim eða gert við þá árið 2023 eða fyrr. Yrði húsfélagið ekki við þessari kröfu vildi eigandinn að lagðar yrðu á það 20.000 króna dagsektir.
Eigandinn ósátti sagði í sinni greinargerð að allt árið 2023 og jafnvel fyrr hafi borið á göllum í íbúð hans, annars vegar á parketi og hins vegar sé hiti ójafn. Margir eigendur hafi fengið bætt tjón á íbúðum sínum en ekki hann. Formaður húsfélagsins hafi neitað að upplýsa hverjir hafi notið slíkrar aðstoðar.
Eigandinn sagði einnig að svalagluggi í íbúð hans læki þegar ringdi mikið, en formaðurinn hafi upplýst að sumir eigendur í þeim hluta hússins sem íbúð eigandans er í hafi fengið nýja glugga í stað þeirra gölluðu eða fengið viðunandi viðgerðir. Formaðurinn hafi þó neitað að upplýsa um hvaða íbúðir var að ræða.
Eigandinn sagði í sinni greinargerð til nefndarinnar að það skipti hann máli að geta borið sig saman við aðra eigendur til að greina vandamálin og vita til hvaða ráðstafana þurfi að grípa sjálfstætt og/eða sameiginlega gagnvart byggingaraðila.
Í greinargerð húsfélagsins kom fram að það hafi í eitt skipti haft milligöngu um viðgerðir í séreignum, en í lok árs 2021 hafi óvenjumikið verið um galla í gólfhitakerfum íbúða. Það hafi tekið töluverðan tíma að finna orsök vandans og vorið 2023 hafi verið ákveðið að óska eftir mati dómkvadds matsmanns. Til hagræðingar hafi eigendum verið boðið að framselja kröfur sínar til húsfélagsins og koma þannig í veg fyrir að meta þyrfti kerfið sjálfstætt fyrir hverja íbúð. Til þess hafi þó ekki komið þar sem verktakar hafi gert sáttatillögu um greiðslu bóta að fjárhæð 700.000 krónur. Bæturnar hafi verið lagðar inn á reikning húsfélagsins.
Eigendum hafi verið tilkynnt að hægt væri að senda beiðnir um endurgreiðslur vegna viðgerða á gólfhita ásamt afritum af reikningum til ónefnds þjónustuaðila húsfélagsins, sem hafi móttekið beiðnirnar og endurgreitt þeim af bótafjárhæðinni. Umræddir eigendur hafi allir fengið endurgreitt að fullu þær fjárhæðir sem þeir hefðu lagt út fyrir vegna viðgerða á gólfhita. Stjórn húsfélagsins hafi beiðnirnar ekki undir höndum og ekki upplýsingar hvaða eigendur hafi fengið greitt eða hversu háa fjárhæð.
Það væri þó hægt að afla þeirra gagna en það væri álitamál hvort heimilt væri að afhenda gögnin. Eigandinn hafi rétt til að skoða reikninga húsfélagsins en í þessu tilfelli sé þó ekki um að ræða ráðstöfun úr hússjóði heldur hafi þjónustuaðili húsfélagsins haft milligöngu um að endurgreiða eigendum kostnað af bótafjárhæðinni. Stjórn húsfélagsins sé óviss hvort brotið yrði gegn persónuvernd annarra eigenda með því að veita upplýsingarnar.
Stjórnin hafi þar að auki ekki upplýsingar um hvaða eigendur hafi fengið viðgerð á gluggum. Eigandinn geti sjálfur óskað eftir þessum upplýsingum frá verktaka. Þá sé í húsbók á vef þjónustuaðilans að finna fundargerðir, ársreikninga og tryggingarskjöl sem allir eigendur hafi aðgang að.
Kærunefnd húsamála segir í sinni niðurstöðu að húsfélaginu sé ekki stætt á því að neita að veita upplýsingar um það hvaða eigendur fengu hlutdeild í bótunum sem og þá fjárhæð sem hver og einn fékk. Bæturnar hafi verið greiddar á grundvelli samkomulags sem húsfélagið gerði og greiðslur farið fram í gegnum sameiginlegan reikning. Þá bendi lýsing húsfélagsins á málavöxtum til þess að það hafi verið eigandi umræddra krafna eftir framsal viðkomandi eigenda til þess.
Því féllst nefndin á að húsfélagið ætti að upplýsa hinn ósátta eiganda um hvaða eigendur í húsinu hefðu fengið bætur á grundvelli samkomulagsins við verktakana.
Þegar kom að hinni kröfu eigandans um að húsfélagið ætti að upplýsa um í hvaða íbúðum hefði verið skipt um glugga tók nefndin einnig undir það, á þeim grundvelli að rík upplýsingaskylda hvíli á stjórn húsfélaga gagnvart eigendum um öll þau atriði er varði sameiginlegt viðhald. Gluggar falli að hluta til undir sameign og beri húsfélaginu að veita eigandanum upplýsingar um þær sameignarframkvæmdir sem hafi átt sér stað á gluggum á undanförnum árum af hálfu húsfélagsins, að því marki sem þær væru aðgengilegar. Séu þær upplýsingar ekki til reiðu eigi húsfélagið að afla þeirra. Eigandinn eigi þó ekki rétt á upplýsingum um framkvæmdir er snúai að þeim hlutum glugga sem tilheyri séreignum.
Nefndin tók ekki undir beiðni eigandans um dagsektir enda hefur hún enga lagaheimild til að leggja á sektir.