Framsókn fór úr þrettán þingmönnum fyrir kosningar niður í fimm og þá féllu allir ráðherrar flokksins af þingi nema Sigurður Ingi.
Lilja telur að yfirlýsing Bjarna um brotthvarf úr stjórnmálum hafi aukið þrýsting á Sigurð Inga að gera slíkt hið sama. Fjallað er um viðtalið í Morgunblaðinu í dag og þar kemur fram að samkvæmt heimildum blaðsins séu háværar raddir innan Framsóknarflokksins um að formaðurinn axli ábyrgð á slökum árangri flokksins í kosningunum.
„Það sem ég heyri í okkar fólki er að það vill fara yfir stöðuna,“ segir Lilja og nefnir að fólk hafi áhuga á að flýta jafnvel flokksþingi flokksins.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að hermt sé að Sigurður Ingi vilji bíða eftir að endanlegar niðurstöður kosninganna liggi fyrir, en bæði Píratar og Framsóknarflokkur kærðu framkvæmd þeirra í Suðvesturkjördæmi. Óljóst er hversu langan tíma það mun taka.