fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Hvernig gat 22 ára maður horfið gjörsamlega í Vestmannaeyjum? Vissu Marokkómennirnir eitthvað um afdrif hans?

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 24. mars 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sérstök auglýsing birtist í Lögbirtingablaðinu vorið 1990 og vakti að vonum töluverða athygli. Í auglýsingunni var lýst eftir Bernard Journet sem var búsettur í Reykjavík en ekkert hafði heyrst frá honum eða spurst til hans síðan þann 12. maí 1969. Auglýsingin var svohljóðandi:

„Tilkynning um mannshvarf. Samkvæmt beiðni dagsettri 21. desember 1989 áritaðri af saksóknara franska lýðveldisins, er þess farið á leit við yfirrétt Lyonborgar (Tribunal de Grande Instance de Lyon) að hann lýsi hvarfi Bernard Journet, sem fæddur er 9. júní 1946 í Amberieu en Bugey (Ain). Síðast var Bernard Journet búsettur í Reykjavík á Íslandi og hefur ekki birst á heimili sínu né látið frá sér heyra síðan 12. maí 1969.“

Auglýsingin var birt í Lögbirtingablaðinu af lagalegum ástæðum. Fjölskylda Bernards, sem bjó í smábænum St. Didier de Formans í Ardennafjöllunum í norðurhluta Frakklands, hafði óskað eftir að saksóknari lýsti yfir hvarfi hans og í framhaldi yrði hann lýstur „löglega látinn“ að því er segir í umfjöllun Pressunnar frá því í lok júlí 1990. Ástæðan fyrir þessari beiðni var að yngri systir hans vildi fá greiddan arf eftir Bernard en honum hafði áskotnast arfur og þar sem hann var ekki til staðar áttu nánustu ættingjar hans rétt á arfinum en fyrst varð að lýsa hann látinn.

Eins og jörðin hefði gleypt hann

Á árunum 1968 til 1972 komu þrír ungir Frakkar hingað til lands og létust hér, að því að talið er. Bernard var fyrstur þessara ungu manna til að koma til landsins en það er eins og jörðin hafi gleypt hann og þegar Pressan fjallaði um málið 1990 mundi enginn eftir honum. Hjá lögreglunni í Reykjavík og í Vestmannaeyjum kannaðist enginn við málið. Samlandar hans, búsettir í Reykjavík, könnuðust ekki við hann og í franska sendiráðinu hafði enginn heyrt um Bernard eða auglýsinguna í Lögbirtingablaðinu.

Lögfræðingur fjölskyldu hans sagði að franska utanríkisráðuneytið og sendiráðið á Íslandi hafi á sínum tíma látið rannsaka hvarf hans en án árangurs. Í umfjöllun Pressunnar segir að svo hafi virst sem lítill áhugi væri á málinu hjá íslenskum yfirvöldum miðað við viðbrögðin þegar spurst var fyrir um það.

Kom hann hingað til lands til að deyja?

Eldri systir hans, Madeleine, virtist að sögn blaðamanns vera eina manneskjan sem hafði áhuga á að komast að hver örlög Bernard urðu. Hún sagði að hann hafi verið ævintýramaður í eðli sínu og hafi haldið að heiman skömmu eftir maíuppreisnina 1968. Í júní hafi hann yfirgefið heimili þeirra í hinsta sinn. Hún sagði hann hafa ætlað í hnattferð og hafi Kanada átt að vera upphafsstaður ferðarinnar. Af einhverjum ástæðum fór hann hins vegar til Íslands og ílentist hér á landi þar sem honum gekk illa að fá leyfi til að ferðast til Kanada. Hann sendi Madeleine þrjú bréf frá Íslandi. Í því síðasta sagðist hann ætla að reyna að fá skipspláss en þá var hann í Vestmannaeyjum og vann í frystihúsi. Madeleine sagðist hafa sent honum pakka um jólin 1968 en hann hafi aldrei látið hana vita hvort hann fékk hann.

Eigur Bernards fundust í herbergi hans og því er ólíklegt að hann hafi ráðið sig á skip sem hafi síðan farist með manni og mús að mati Madeleine. Hún sagðist ætla að hann hefði tekið eigur sínar með enda hafi þær ekki verið miklar. Lögreglan færði föður þeirra þessa muni síðar. Lögreglumaðurinn, sem fór í herbergið, sagði að það hefði verið eins og Bernard hefði bara skroppið út í búð.

„Lögreglan kom til pabba með þetta dót, úrið hans og fleiri smáhluti. Bernard á víst enn bankabók í Reykjavík en við höfum aldrei óskað eftir að fá féð greitt. Ég held að hann hafi átt íslenska kærustu en hún hefur aldrei reynt að hafa samband við okkur. Pabbi náði sér aldrei eftir þetta. Hann lést þremur árum síðar.“

Bernard var meðalmaður á hæð með dökkt hrokkið hár og brún augu. Hann gekk í augun á kvenfólki en var ekki mikið upp á kvenhöndina og er sagður hafa átt eina vinkonu á Íslandi, þá sem er nefnd hér að framan.

Síðustu jólin, Pressan 2. ágúst 1990

Trúði ekki að hann hefði svipt sig lífi

Madeleine sagði að niðurstaða rannsóknar lögreglunnar hefði verið að Bernard hafi verið þunglyndur og hefði svipt sig lífi. Hún sagði að fjölskylda hans hefði aldrei trúað þeirri niðurstöðu.

„Ég er sjálf alveg viss um að bróðir minn hefur ekki framið sjálfsmorð. Hann var alls ekki þunglyndur. Þvert á móti var hann bjartsýnn og dugmikill ungur maður og mikill náttúruunnandi. Hann hafði mikið yndi af náttúruskoðun og mér skilst að hann hafi sökkt sér niður í hana á Íslandi. Hann var fremur hlédrægur og talaði lítið um sjálfan sig, en hann var ekki þar fyrir óhamingjusamur.“

Hann var reglumaður, reykti ekki og drakk ekki áfengi.

Ættingjar Bernards komu aldrei til Íslands en ferðalög voru öllu meira mál 1969 en nú á dögum. Madeleine sagði að fjölskyldan ætti ekki von á að Bernard hefði látið eitthvert fé að ráði eftir sig en það hefði verið kominn tími til að ganga frá málinu og lýsa hann formlega látinn.

Marokkómennirnir tveir

Fyrst eftir að Bernard kom til Vestmannaeyja bjó hann í tjaldi nærri stað þar sem Þórsheimilið er núna. Hann var með mjög fullkominn útilegubúnað með sér og var vanur ferðalögum. Hann gaf sig lítið að öðru fólki og virtist vera sjálfum sér nógur segir í umfjöllun Helgarpóstsins í byrjun júlí 1995. Hann sást oft á göngu um eyjarnar. Krakkar fóru fljótlega að gefa sig að honum og tveir ungir bræður urðu fljótt kunningjar hans. Foreldrar þeirra buðu honum heim og var hann ávallt velkominn á heimili þeirra. Hann talaði litla ensku og átti erfitt með samskipti við fólk fyrst eftir að hann kom til landsins. Hann náði aldrei neinum tökum á íslensku en bætti sig í ensku sem auðveldaði samskipti hans við heimamenn.

Þegar leið að hausti fékk Bernard herbergi í verbúðinni Dagsbrún sem var í eigu Hraðfrystistöðvarinnar. Hann vann af og til í fiski og lifði nægjusömu lífi. Hann lagði fyrir inn á bankabók eins og hann gat. Tveir farandverkamenn frá Marokkó voru við störf í Vestmannaeyjum á vertíðinni 1969. Þeir gerðu sér dælt við Bernard og hafði hann á orði við vini sína að þeir væru sníkjugjarnir en hann hefði ekki áhuga á að lána þeim peninga. Ekki er vitað til að til illinda eða átaka hafi komið á milli Bernards og Marokkómannanna en vitað er að þeir fóru af landi brott fljótlega eftir hvarf hans.

Sá síðast til hans

Um hádegisbil þann 12. maí 1969 hitti faðir bræðranna, sem voru vinir Bernards, hann á göngu á gatnamótum Kirkjuvegar og Heiðarvegar. Hann bauð honum með en Bernard afþakkaði og sagðist vera að fara í gönguferð en þáði hins vegar boð um að koma í kvöldmat um klukkan 19. Hann mætti aldrei í kvöldmatinn og lét ekkert heyra í sér sem þótti undarlegt, hann var þekktur fyrir að halda orð sín.

Fljótlega tóku foreldrar bræðranna að spyrjast fyrir um Bernard en án árangurs. Ekki var þó farið að óttast um hann fyrr en nokkrum dögum síðar þegar húsvörðurinn í Dagsbrún hafði ekki séð til hans í nokkra daga. Leitað var á svæðinu fyrir ofan Urðarvita, sem var austast á eyjunni fyrir gos, en Bernard hafði oft tjaldað þar. Leitað var á sjó og fjörur voru gengnar og tók fjölmenni þátt í leitinni en án árangurs.

Tveir Frakkar til viðbótar létust hér á landi

Eins og fyrr var getið létust tveir ungir Frakkar hér á landi á skömmum tíma í kringum hvarf Bernard. Annar þeirra þótti ansi sérstakur, allt að því dularfullur. Hann kom hingað með flugi aðeins klæddur næfurþunnum indverskum fatnaði og steig út í vetrarkuldann með bænateppið sitt undir hendinni. Hann hélt beint til fjalla og varð úti. Fleiri virtust muna eftir þessum manni enda var hann kannski öllu sérstakari í útliti, en honum var lýst sem birtingarmynd hippatímans.

Þriðji Frakkinn sem lést hér á landi á þessum tíma hét Dominique en margir kölluðu hann Gaston. Hann er sagður hafa búið yfir öllum eiginleikum rómantískrar hetju og það er kannski þess vegna sem minning hans lifði lengur meðal fólks. Hann var einmana, þunglyndur, lék á gítar og sinnti skáldskap. Hann átti unnustu og marga vini í Reykjavík en þar bjó hann. Einn morgun fundust fötin hans í fjörunni við Laugarnes og því ekki annað að sjá en að hann hafi lagst til sund og drukknað.

Fámennið var kannski ekki betra en fjölmennið

Við Íslendingar dásömum oft kosti fámennisins og það öryggi sem það veitir okkur og geri sérhvern íbúa landsins svo mikils virði. Þá er samkennd okkar Íslendinga sögð um margt sérstök og mikil og eigi jafnvel engan sinn líka í heiminum. En getur verið að fámennið okkar sé ekkert betra en fjölmennið í erlendum milljónasamfélögum? Það að ungur franskur maður hafi getað horfið með öllu af yfirborði jarðar í litlum bæ eins og Vestmannaeyjum 1969 og gleymst fljótlega hlýtur að vekja upp spurningar um þetta. Þá má velta fyrir sér hvort rannsókn málsins hafi verið nægilega góð. Hvarf hans var afgreitt sem sjálfsvíg og kannski var það svo. En ekki er að sjá að aðrir möguleikar hafi verið rannsakaðir til hlítar. Hvað með Marokkómennina tvo sem fyrr var getið? Taldi enginn ástæðu til að yfirheyra þá? Bernard hafði sagt fólki að þeir hefðu sótt að honum í von um fé, gaf það ekki tilefni til nánari skoðunar lögreglunnar? Málið mun örugglega aldrei upplýsast en eftir stendur að ungur maður hvarf í Vestmannaeyjum án þess að nokkuð sé vitað um örlög hans.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?

Eiga ekki orð yfir „málaliða“ Pútíns – Hvað eru þeir að gera?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við