Í henni fer hún yfir helstu kosningaloforð flokksins komist hann í ríkisstjórn og lýsir því hvernig flokkurinn mun fjármagna þau.
Í grein sinni segir Inga að stjórnvöld hafi svikið öryrkja og ellilífeyrisþega í kjölfar hrunsins. Lífeyrir þeirra hafi verið skertur af „hrunstjórninni“ til að uppfylla óskir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Því hafi þó verið lofað að þær skerðingar yrðu leiðréttar um leið og þjóðarskútan væri komin á lygnari sjó. „Það var lygi,“ segir hún.
„Þess í stað máttu öryrkjar og aldraðir horfa upp á kjör sín versna ár frá ári með tilliti til launaþróunar. Fleiri voru loforðin sem stjórnvöld sviku. Frægt er orðið bréfið sem Bjarni Benediktsson sendi öllum eldri borgurum í aðdraganda kosninganna 2013, þar sem hann lofaði að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Hverjar voru efndirnar eftir að hann komst í ríkisstjórn? Engar,“ segir hún.
Inga bendir á að frá stofnun hafi Flokkur fólksins barist fyrir því að uppsöfnuð kjaragliðnun örorku- og ellilífeyrisþega verði leiðrétt.
„Við höfum lagt fram fjölda þingmála sem miða að því að bæta stöðu lífeyris- og almannatryggingaþega og koma í veg fyrir það óréttlæti og arðrán sem á sér stað á kjörum þeirra hvern einasta dag í gildandi kerfi,“ segir hún.
Inga bætir við að ef Flokkur fólksins kemst í næstu ríkisstjórn verði það forgangsmál að hækka grunnframfærslu almannatrygginga þannig að allir öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái 450.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Sú fjárhæð taki breytingum ár hvert til samræmis við launaþróun eins og hún birtist í launavísitölu.
„Flokkur fólksins mun afnema skerðingar á ellilífeyri vegna atvinnutekna og hækka frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna í 100.000 kr. á mánuði. Öryrkjum tryggjum við tækifæri til að vinna í tvö ár án tekjuskerðinga og án þess að örorka þeirra verði endurmetin,“ segir Inga sem fer svo yfir það hvernig þetta verður fjármagnað.
„Eflaust spyrja einhverjir – en Inga, hvernig ætlar þú að fjármagna þetta? – Það er einfalt – við ætlum að sækja fé þangað sem nóg er fyrir – með hækkun bankaskatts – með hækkun auðlindagjalda á stórútgerðina og með afnámi undanþágu staðgreiðskyldu lífeyrissjóðanna. Þá viljum við ekki aðeins gera breytingar sem lúta að réttindaflokkum almannatryggingakerfisins – við viljum efla mannréttindi eldra fólks og öryrkja. Við munum lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, til að tryggja fötluðu fólki þá sjálfsögðu réttarvernd sem samningurinn mælir fyrir um. Við munum einnig stofna embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks, svo að eldra fólk geti leitað til síns eigin málsvara sem veitir þeim hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum og vinnur gegn félagslegri einangrun þeirra.“
Inga segir að lokum að flokkurinn hafi með baráttu sinni á alþingi sýnt hvar hjarta hans slær.
„Við höfum óumdeilt látið verkin tala og í ykkar umboði munum við hrinda þeim í framkvæmd.“