fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fréttir

„Mér er hætt að lítast á blikuna, fólki líður illa og hringir sig oftar inn veikt“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. október 2024 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að ömurlegt og óréttlætanlegt ástand ríki á hjúkrunarheimilum höfuðborgarsvæðisins. Samninganefnd Eflingar mætti til ríkissáttasemjara klukkan 10 og segir Sólveig Anna að beðið sé eftir því að sjá fullnægjandi tillögur um raunverulegar aðgerðir til að bæta úr ástandinu á hjúkrunarheimilum höfuðborgarsvæðisins.

Sólveig Anna skrifar færslu á Facebook þar sem hún bendir á að Efling sé stærsti viðsemjandi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Viðræðurnar séu fyrir hönd um það bil 2.300 einstaklinga og um sé að ræða frábæran hóp fólks allsstaðar að úr veröldinni.

„Er aðbúnaðar aldraðra og þeirra sem vinna við umönnun þeirra ekki vitnisburður um það hvernig við í raun metum mannlega tilveru – er mannleg reisn það sem skiptir okkur mestu máli eða er okkar ríka þjóðfélag okkar svo illa haldið að ekkert skiptir meira máli en að Excel-skjöl ráðuneytanna gangi upp í hugum Excel-mannanna? Í dag kemur í ljós hvernig heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið hyggjast svara þeirri spurningu.“

Sólveig Anna segir að á meðan beðið er eftir svari haldi Efling áfram að birta frásagnir Eflingarfélaga. Deilir hún Facebook-færslu þar sem Karla Barralaga Ocón, stjórnarkona í Eflingu og trúnaðarmaður Eflingarfélaga á Mörk hjúkrunarheimili, safnaði saman frásögnum frá vinnufélögum sínum um undirmönnun og ofurálag í vinnunni.

„Hún er ein af kvenhetjum okkar og ein frábærasta og skemmtilegasta manneskja sem ég hef kynnst. Hér deilir hún frásögnum vinnufélaga sinna. Ég hvet ykkur til að lesa þær og deila þeim áfram. Stuðningur ykkar skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Sólveig Anna en frásagnirnar sem Karla safnaði saman má lesa hér að neðan:

Starfsmaður 1: „Ég kem til vinnu klukkan 08:00 um morguninn og við erum bara tvö með suðurdeildina. Þannig hefur það verið allan mánuðinn og ég er örmagna. Þó einn starfsmaður verði veikur er enginn fenginn í staðinn. Þau borga okkur ekki meira þrátt fyrir mun meira álag.“

Starfsmaður 2: „Ég er að vinna á næturvöktum. Ef einhver hringir sig inn veikan endum við á því að þurfa að vinna ein með 31 íbúa á okkar ábyrgð. Næturvaktir eru ekki auðveldar og við hringjum á aðra hæð til að biðja um aðstoð en þau eru líka að kikna undan álaginu. Mér er orðið mjög illt í bakinu.“

Starfsmaður 3: „Þegar ég spurði yfirmann um hvernig hádegismatnum yrði háttað var mér sagt að ég ætti að sitja með gamla fólkinu og þar fengi ég smá hvíld. En það verður engin hvíld, því fólkið þarf stöðuga athygli og þjónustu. Ég talaði við forstöðukonuna um þetta og hún sagði að ég væri að fá frían mat og ætti því ekki að kvarta. Á endanum hætti ég að tala um þetta. Mér er hætt að lítast á blikuna, fólki líður illa og hringir sig oftar inn veikt. Ég held að starfsfólkið höndli þetta ekki mikið lengur.“

Starfsfólk 4: „Enginn vill taka aukavaktir lengur af því þetta eru allt fjögurra tíma stubbavaktir þar sem þú þarft að vinna tvöfalda eða þrefalda vinnu yfir þann tíma. Þar sem ég er núna eru 5 eða 6 starfsmenn þar sem ættu að vera 9. Við sjáum um íbúa sem hafa mikla þjónustuþörf og þetta er ekki gott ástand, hvorki fyrir okkur né þau.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Í gær

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng