fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Arndís, Ragnar og Pedro verðlaunuð – Skúli hlaut Blóðdropann fyrir frumraun sína

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 24. janúar 2023 20:50

Pedro, Ragnar, Arndís og Skúli. Mynd: Skjáskot RÚV.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í kvöld, þriðjudaginn 24. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV.

Íslensku bókmenntaverðlaunin skiptast í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru: Arndís Þórarinsdóttir fyrir Kollhnís í flokki barna- og ungmennabóka, Ragnar Stefánsson fyrir Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir Lungu í flokki skáldverka. 

Blóðdropann í ár hlaut Skúli Sigurðsson fyrir Stóri bróðir. Um er að ræða fyrstu bók höfundar og verður hún framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna, Glerlykilsins.

Umsagnir dómnefnda og nöfn meðlima dómnefnda má lesa neðar í fréttinni.

Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess eru verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir.

Forseti Íslands setti samkomuna sem sjónvarpað var í beinni útsendingu á RÚV. Því næst flutti Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.

Jón Jónsson flutti lögin Gæti þín, lag og texti Jón Jónsson og Ef ástin er hrein, lag Jón Jónsson, texti Jón Jónsson og Einar Lövdahl Gunnlaugsson.

Umsagnir lokadómnefnda:

Skúli Sigurðsson
Stóri bróðir
Útgefandi: Drápa

Umsögn lokadómnefndar:

Stóri bróðir er haganlega saman sett saga um ofbeldisglæpi og vandlega undirbyggða hefnd með löngum aðdraganda sem flett er ofan af eftir því sem dýpt frásagnarinnar eykst. Fjölbreytt persónusköpun og markviss notkun ólíkra sjónarhorna eykur bæði á spennuna og skýrir hvernig hægt er að réttlæta óhæfuverk fyrir sjálfum sér (og jafnvel láta þau yfir sig ganga án þess að segja frá þeim). Um leið verða knýjandi innri ástæður hefndarinnar trúverðugar. Vel er haldið utan um hina mörgu og saman fléttuðu söguþræði í bland við breiða samfélagslýsingu og afhjúpun á stofnanatengdu ofbeldi gagnvart drengjum – sem á stóran þátt í óhugnaðinum og áhrifamætti sögunnar.

Arndís Þórarinsdóttir
Kollhnís
Útgefandi: Mál og menning

Umsögn lokadómnefndar:

Kollhnís segir frá því hvernig ungur drengur upplifir umhverfi sitt og fjölskylduaðstæður sem hann ræður illa við eftir að litli bróðir hans greinist með einhverfu. Sagan er skrifuð af miklu stílöryggi og tekur á erfiðum málum með hæfilegri glettni sem gerir það bæði bærilegt og skemmtilegt að fylgjast með því hvernig sýn fullorðinna afhjúpar þá mynd sem drengurinn gerir sér af þeim sem hann dáist að og tengist vináttu- og tilfinningaböndum – í krafti einlægni sinnar. Samtöl eru sannfærandi og styðja vel við hvernig snúið er upp á ranghugmyndir um fullkomnun og velgengni annarra — sem kallast á við þá viðleitni að feta hina beinu lífsins braut að skilgreindum markmiðum með sviðsettri sjálfsmynd á samfélagsmiðlum.

Ragnar Stefánsson
Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta
Útgefandi: Skrudda

Umsögn lokadómnefndar:

Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta geymir afrakstur ævilangrar glímu við rannsóknir sem hafa beinst að því hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Hér eru dregnar saman niðurstöður alþjóðlegrar þekkingarleitar sem skilaði loks þeim árangri að hægt var að spá fyrir um stóran skjálfta á Suðurlandi. Sagan á bak við þennan heimsögulega árangur er sögð með aðgengilegum hætti, vel skrifuðum texta, upplýsandi kortum og skýringarmyndum, án þess að slakað sé á fræðilegum kröfum; uppgötvunarferlinu er haldið til haga og þess gætt að sýna öllum sem að því hafa komið örlæti. Hér getur hvert mannsbarn séð hvernig vísindaleg þekking verður til – á sviði sem varðar almenning miklu – og því er verkið líklegt til að laða ungt fólk að vísindum.

Pedro Gunnlaugur Garcia
Lungu
Útgefandi: Bjartur

Umsögn lokadómnefndar:

Lungu er breið fjölskyldusaga margra kynslóða úr ólíkum heimshornum, sem færist smám saman inn á okkar tímaskeið hér á landi en teygir sig líka til framtíðar þegar kynslóðirnar safnast saman í sýndarveruleika sem kallast á við sjálfa alheimssöguna. Hér er sleginn nýr tónn í íslenskri skáldsagnagerð með töfrandi frásagnargleði sem fer áreynslu- og hispurslaust á milli dýpstu tilfinninga og átaka til ævintýralegra gleðistunda með goðsagnakenndu ívafi – þannig að jafnvel mestu hörmungarnar njóta góðs af gleðinni. Sambönd elskenda og kynslóða eru brotin og löskuð en sögur og minningar megna að lýsa upp örlagastundir í lífi þeirra, sýna lesandanum sjálfan lífsneistann og fanga oft kjarnann í langri ævi.

20 bækur tilnefndar

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi tuttugu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu þau Guðrún Steinþórsdóttir, Kamilla Guðmundsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir, Skúli Pálsson og Gísli Sigurðsson, sem var formaður nefndarinnar.

Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:

Eva Björg Ægisdóttir: Strákar sem meiða, útg. Drápa Lilja Sigurðardóttir: Drepsvart hraun, útg. JPV útgáfa Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir: Reykjavík glæpasaga, útg. Veröld Skúli Sigurðsson: Stóri bróðir, útg. Drápa Stefán Máni: Hungur, útg. Sögur útgáfa

Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Sigríður Kristjánsdóttir, formaður dómnefndar, Áslaug Óttarsdóttir og Einar Eysteinsson.

Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

Arndís Þórarinsdóttir: Kollhnís, útg. Mál og menning Elísabet Thoroddsen: Allt er svart í myrkrinu, útg. Bókabeitan Eiríkur Örn Norðdahl og Elías Rúni, myndhöfundur: Frankensleikir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir: Héragerði, útg. Salka Sigrún Eldjárn: Ófreskjan í mýrinni, útg. Mál og menning

Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.

Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Árni Snævarr: Ísland Babýlon: Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi, útg. Mál og menning Kristín Svava Tómasdóttir: Farsótt: Hundrað ár í Þingholtsstræti 25, útg. Sögufélag Ragnar Stefánsson: Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta, útg. Skrudda Stefán Ólafsson: Baráttan um bjargirnar: Stjórnmál og stéttarbarátta í mótun íslensks samfélags, útg. Háskólaútgáfan Þorsteinn Gunnarsson: Nesstofa við Seltjörn: Saga hússins, endurreisn og byggingarlist, útg. Þjóðminjasafn Íslands

Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Skúli Pálsson, formaður dómnefndar, Margrét Auðunsdóttir og Sara Hrund Helgudóttir.

Eftirfarandi höfundar voru tilnefndir í flokki skáldverka:

Auður Ava Ólafsdóttir: Eden, útg. Benedikt bókaútgáfa

Dagur Hjartarson: Ljósagangur, útg. JPV útgáfa

Kristín Eiríksdóttir: Tól, útg. JPV útgáfa

Pedro Gunnlaugur Garcia: Lungu, útg. Bjartur

Sigríður Hagalín Björnsdóttir: Hamingja þessa heims: Riddarasaga, útg. Benedikt bókaútgáfa

Dómnefnd fyrir tilnefningar skipuðu: Kamilla Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Andri Yrkill Valsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“