Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í tvígang afskipti af manni í gær sem pantaði sér veitingar á veitingastöðum í hverfi 108 og neitaði svo að borga reikninginn.
Eftir fyrri afskipti lögreglu var maðurinn kærður fyrir fjársvik en seinna um daginn var aftur tilkynnt um sama mann á veitingastað í hverfinu og var þá sama uppi á teningnum. Var hann vistaður í fangageymslu vegna ástands og fjársvika.
Lögregla fék tilkynningu um að tveir aðilar hefðu sprautað úr slökkvitæki á stigagangi í hverfi 111. Lögregla fór á vettvang og kom þá í ljós að um var að ræða tvo einstaklinga sem voru undir lögaldri. Var málið unnið með forráðamönnum.
Lögregla handtók svo mann í annarlegu ástandi sem var að reyna að opna bíla í hverfi 104. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.