Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar Íslendinga við netsvindli sem margir virðast hafa fallið fyrir í dag. Um er að ræða enn eitt svindlið á Facebook og eru landsmenn hvattir til að fara að öllu með gát.
„Nokkuð margir eru farnir að deila myndum frá Toyota Hilux, Club Fans um að Toyota Hilux fáist gefins. Á fimm klukkustundum eru komin 1.600 athugasemdir og 2.900 deilingar á því sem er svindl,“ segir í skeyti lögreglu á Facebook-síðu lögreglunnar í hádeginu en þegar þetta er skrifað eru ummælin komin í 2.600 og deilingarnar yfir 4.300. Hafa fjölmargir Íslendingar fallið í þá gryfju að deila efninu áfram og skrifa athugasemdir við færsluna.
„Þetta er svikasíða og sennilega vefveiðar (e. Phishing). Við sjáum ekki enn hvert svindlið leiðir en mögulega verður haft samband við fólk og það fær „vinninginn“ en fyrst þarf það að greiða staðfestingar- eða skráningargjald,“ segir í tilkynningu lögreglu.
„Þetta hefur ekkert með hið raunverulega fyrirtæki Toyota á Íslandi að gera og er á suman hátt góð leið til að læra aðeins um svona svindl. Ef þið skoðið tengilinn þá sjáið að þarna er bókstaflega ekkert annað og þar vantar mikið. Farið varlega í að trúa því sem er á netinu og samfélagsmiðlum. Þegar þið sjáið svona kíkið á hver er að baki. Þið sjáið fljótlega hvað það er falskt. Verjið ykkur og lærið að þekkja svindl á netinu,“ ítrekar lögregla.