Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að mikill erill í kringum tímafreka sjúkraflutninga komi niður á mönnun slökkvibíla. „Samkvæmt reglugerðinni eiga að vera fimm menn á hverjum dælubíl og það er reynt að láta það ganga upp,“ er haft eftir Bjarna Ingimarssyni, varaformanni Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Hann sagði jafnframt að flest verkefnin tengist sjúkraflutningum og að undanförnu hafi verkefni SHS verið allt að 140 á dag. Þá séu sjúkrabílarnir meira og minna uppteknir í verkefnum og það hafi að sjálfsögðu áhrif á dælubílana. „Þá erum við að fara kannski niður í tvo til þrjá á hvern bíl. Það hefur komið fyrir að aðeins varðstjórinn sé eftir á stöðinni,“ sagði hann einnig.
Töluverð umræða var um mönnunina í kjölfar hins mannskæða bruna á Bræðraborgarstíg 25. júní síðastliðinn. Þá voru allir fjórir slökkviliðsbílarnir, sem komu á vettvang, undirmannaðir. Þetta voru bílar frá öllum stöðvum SHS. Ekkert hefði því mátt koma upp á sem krafðist þess að slökkviliðsbíll yrði sendur á vettvang.
Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um brunann á Bræðraborgarstíg kemur fram að í ljósi þess mikla álags sem almennt er í sjúkraflutningum á svæði SHS telji HMS þörf á að íhuga alvarlega möguleika á að efla mannafla liðsins.
Fréttablaðið segir að það sé ekkert nýtt að SHS glími við undirmönnun og sú staða hafi áður komið upp að aðeins einn sjúkrabíll hafi verið í umferð á höfuðborgarsvæðinu. Staðan hefur verið sérstaklega flókinn í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Mannskap hafi verið bætt við til að mæta fjölgun sjúkraútkalla en það hafi ekki dugað til.
Vegna faraldursins mega slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ekki fara á milli starfsstöðva og ekki má kalla út aukavaktir vegna veikinda og annarra forfalla.