fbpx
Sunnudagur 20.apríl 2025
Fréttir

„Þetta eru konurnar sem þurfa sárlega á því að halda að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar“

Auður Ösp
Föstudaginn 21. ágúst 2020 14:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Svona er viðhorf talsmanna auðstéttarinnar og eigenda atvinnutækjanna til vinnukvenna þessa lands. Líkt og aðall fyrri alda sjá þau ekki manneskjur af holdi og blóði þegar þau líta niður til vinnuaflsins, bara hjú sem best er að píska áfram. Svo að letin nái ekki yfirhöndinni.“  Þetta ritar Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í harorðum pistli á facebook þar sem hún tekur upp hanskann fyrir láglaunakonur á Íslandi, og þá helst á Suðurnesjum og fordæmir þá ráðamenn sem hafa talað gegn hækkun atvinnuleysisbóta.

Atvinnuleysi  hefur hvergi aukist meira en á Suðurnesjum og mælist nú 16,5 prósent samkvæmt vinnu­mark­aðs­skýrslu Vinnu­mála­stofn­unar sem birt var í síðustu viku. Erfiðleikar í flugrekstri og ferðaþjónustu spila þar stóran þátt en tæplega helmingur atvinnulausra á Suðurnesjum kemur úr ferðaþjónustu eða flugsamgöngum.Í fyrrnefndri skýrslu kemur einnig fram að atvinnu­leysi er nú orðið hærra meðal kvenna en karla alls staðar á land­inu nema á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Í pistli sínum bendir Sólveig Anna á að 19 prósent kvenna á Suðurnesjum, eða tæplega ein af hverjum fimm, eru nú atvinnulausar. Flestar þessara kvenna unnu áður í láglaunastörfum, svosem við þrif á hótelum og við afgreiðslu á veitingastöðum.

Það er því einstaklega ólíklegt að þessar konur hafi getað lagt eitthvað fyrir til að geta mætt því fjárhagslega áfalli sem atvinnuleysið er. Þær lifa núna í þeim veruleika að fjárhagsáhyggjurnar fylgja þeim eins og kaldur skuggi hvað sem þær gera og hvert sem þær fara. Með allri þeirri vanlíðan sem því fylgir.  Þetta eru konurnar sem þurfa sárlega á því að halda að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Annars hafa þær ekki möguleika á að sjá fyrir sjálfum sér né börnum sínum.

 Fátækasta fólkið á að bera þyngstu byrðarnar

 Skammt er síðan Drífa Snædal, formaður ASÍ, skoraði á stjórnvöld að hækka atvinnuleysisbætur en raddir sem tala gegn hærri atvinnuleysisbótum heyrast einnig.  Anna Hrefna Ingimundardóttir  forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins lét þau til að mynda þau orð falla á dögunum að hækkun atvinnuleysisbóta valdi meira atvinnuleysi. Bjarni Ben tók í sama streng í viðtali við Kastljós á dögunum og sagði ekki  skynsamlegt að hækka atvinnuleysisbætur. Laun neðst í launastiganum væru ekki nógu hvetjandi til að fara af bótum.

„Þetta eru konurnar sem marg-milljón króna fólkið í Samtökum atvinnulífsins telur að þurfi mest á öllu á „hvatanum til atvinnuleitar“ að halda; ef að bætur verði hækkaðar verði þær svo latar og hysknar að þær vilji ekki vinna meira,“ ritar Sólveig Anna í pistli sínum og bætir við að  „fólkið í Samtökum atvinnulífsins ætti að skammast sín.“

En það er borin von að svo verði. Það eina sem dugar gegn forherðingunni er samtakamáttur okkar og einbeittur baráttuvilji. Þau vilja að fátækasta fólkið beri þyngstu byrðarnar. Það er ekkert annað en félagslegur sadismi. Við skulum ekki láta þau komast upp með grimmdina. Þetta er okkar samfélag, okkar vinna og okkar skattar hafa byggt það og þegar ógæfan bankar upp á kemur ekki til greina að fórna félögum okkar svo að sjúk hugmyndafræði veruleikafirrts auðfólks fái að lifa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“