fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Þórður var dreginn inn í Euro Market-málið : „Þeir fundu „glæpamennina“ en eru enn að leita að glæpnum“

Auður Ösp
Sunnudaginn 26. maí 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Áskell Magnússon dróst með óvæntum hætti inn í Euro Market-málið svokallaða og í kjölfarið sætti fyrirtæki hans rannsókn vegna meints peningaþvættis. Skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur gefið út að ekki sé tilefni til frekari aðgerða en Þórður er engu að síður ennþá með stöðu grunaðs manns í málinu. Hann fordæmir vinnubrögð lögreglunnar við rannsóknina og segir málið einkennast af klaufalegum vinnubrögðum og rasisma.

Karl og Grímur
Blaðamannafundurinn stóri.

Óvæntur blaðamannafundur

Þann 18. desember árið 2017 var boðað til blaðamannafundar hjá lögreglunni og fór hann fram í Rúgbrauðsgerðinni. Fyrir svörum stóðu nokkrir af þekktustu lögreglumönnum landsins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri, Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol, og erlendir lögreglumenn einnig.

„Við erum með það til rannsóknar hvort að hér hafi verið skipulagðir hópar að störfum. Það er grundvöllur þess sem við erum með til rannsóknar,“ sagði Grímur á fundinum.

Tilkynnt var um gríðarlega stóra lögregluaðgerð í þremur löndum; Íslandi, Póllandi og Hollandi, þann 12. desember og að 90 starfsmenn lögreglu og tollyfirvalda hefðu komið að henni. Rannsókn málsins hófst árið 2014 í Hollandi og árið 2016 var íslenskum og pólskum lögregluyfirvöldum gert viðvart.

Umfangsmiklar aðgerðir
Húsleit á heimilum grunaðra.

Euro Market-málið

Málið snerist um innflutning og sölu fíkniefna, fjársvik og peningaþvætti. Hér á Íslandi hafði verið lagt hald á eignir og reiðufé fyrir 200 milljónir íslenskra króna. Þar með talið fasteignir, bifreiðar, fjármuni í bönkum og hluti í fyrirtækjum. Götuverðmæti þeirra eiturlyfja sem um ræddi var hálfur milljarður, bæði amfetamín og MDMA til alsælugerðar. Í löndunum þremur voru alls átta manns handteknir og húsleit gerð á þrjátíu stöðum. Stærstur hluti rannsóknarinnar og aðgerðanna var hér á landi.

Ekki var gefið upp hvaða aðilar hér á landi væru viðriðnir málið. En degi seinna greindi Fréttablaðið frá því að verslunarfyrirtækið Market ehf. væri tengt málinu, en það félag rak pólskar smávöruverslanir undir nafninu Euro Market á þremur stöðum í Reykjavík og Kópavogi. Húsleit var gerð í verslununum og lagt hald á eignir. Samkvæmt ársreikningum hafði velta félagsins tvöfaldast á einu ári, úr 250 milljónum í 500. Eigendurnir voru Arkadiusz Niescier og Arkadiusz Maciej Latowski.

Greint var frá því að fimm Pólverjar hefðu verið handteknir í lögregluaðgerðunum. Voru þeir allir vel þekktir af lögregluyfirvöldum í Póllandi og einhverjir höfðu setið inni. Einnig höfðu einhverjir þeirra hlotið dóma hér á landi fyrir fíkniefnamisferli. Karl Steinar sagði málið skýrasta dæmið um fjölþætta brotastarfsemi sem Íslendingar hefðu staðið frammi fyrir.

Peningar og súrar gúrkur
Lögreglan sendi pólskum fjölmiðlum myndband af aðgerðum.

„Hvorki fugl né fiskur“

Rannsókn og yfirheyrslur héldu áfram um vorið og í júlí var greint frá því að um fimmtán manns hefðu stöðu sakbornings í málinu. Seinna urðu þeir 28. Ekki væru öll málin komin til ákærusviðs. Steinbergur Finnbogason, verjandi annars eiganda verslunarinnar, sagði hins vegar við fjölmiðla að málið hefði minnkað töluvert í umfangi og væri „hvorki fugl né fiskur miðað við þá alþjóðlegu skrautsýningu sem sett var upp og kölluð blaðamannafundur á sínum tíma.“

Einnig sagði hann að upplýsingarnar um fíkniefnafundinn hefðu verið mjög á reiki. Hvorki hefðu fundist fíkniefni hér á Íslandi eða í Póllandi. Verslanir Euro Market væru einnig enn í fullum rekstri og enga breytingu á merkja á rekstrinum fyrir og eftir aðgerðirnar, utan þess að posakerfinu var lokað tímabundið. Þær eignir sem lagt hefði verið hald á væru að mestu íbúðir í Breiðholti að verðmæti um 200 milljóna en á þeim hvíldu lán upp á 170 milljónir. Haldlagðar eignir væru því í raun í kringum 30 milljónir.

Þá hafi lögreglan gengið furðulega hart fram í málinu og meðal annars tekið húsleit upp á myndband hjá fjölskyldu einni í Kópavogi og sent umrætt myndband út til pólskra fjölmiðla í trássi við lög. Meðalhófsreglu hafi heldur ekki verið gætt við gæsluvarðhald og dómstólar snúið ákvörðunum lögreglu í tvígang. Velti Steinbergur því fyrir sér hvort að þjóðerni mannanna væri að flækjast fyrir íslensku lögreglunni eða að lögreglan hefði talið sig þurfa að standa við stóru orðin eftir „digurbarkalegar lýsingar í byrjun.“

Steinbergur Finnbogason
Verjandi í málinu.

Framsali snúið við

Í október var reynt að framselja Latkowski, meintan höfuðpaur í málinu, til Póllands að beiðni þarlendra yfirvalda. En hann hafði verið til rannsóknar hér vegna sömu brota og engin ákæra komin fram. Héraðsdómur staðfesti framsalsúrskurð dómsmálaráðuneytisins en Landsréttur sneri honum við. Um þetta leyti sagði Karl Steinar að málið væri „á lokametrunum.“ Önnur framsalsbeiðni var gerð og farbann yfir Latkowski framlengt.

Í janúar á þessu ári hafnaði Landsréttur því að forsvarsmenn Euro Market fengju fimmtán milljónir til baka af fé sem lögreglan hefði lagt hald á. Voru þetta bæði bankainnistæður og reiðufé sem grunur lék á að hefði verið þvættað. Höfðu alls 28 milljónir verið millifærðar frá reikningum í eigu grunaðra inn á reikninga hjá Euro Market sem lán en lögreglan taldi sig hvergi sjá að lánin hefðu verið endurgreidd og skýringar á því hvaðan peningarnir komu ótrúverðugar.

Um miðjan maí komst Euro Market-málið loksins inn á borð ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Verður þar tekin ákvörðun um hvort að málið teljist fullrannsakað og hvort saksókn verði gerð. Ekki liggur fyrir hvenær málið fer frá ákærusviði.

„Allt lúslesið“

Þórður Áskell Magnússon var dreginn inn í Euro Market-málið og sætti ítarlegri rannsókn. Hann ræddi við DV um málið eftir að hann opnaði sig nýlega á samfélagsmiðlum um reynsluna.

„Fyrir rúmu ári var gerð árás á heimilið mitt og fyrirtæki af Rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég var sjálfur í Bandaríkjunum, en ekki færri en átta lögreglumenn sáu til þess að samtímis væri farið í fyrirtækið mitt, bókhald allt fjarlægt, heimili mitt sett á hvolf, lögreglumenn fóru með heimild í bankann til að brjótast inn í bankahólf sem ég var með þar á leigu. Teknar voru myndir af öllum skartgripum konunnar, erfðaskránni minni, og allar eigur mínar skráðar. Ríkisskattstjóra var sent allt með kröfu um að bókhaldið yrði lúslesið.“

Þórður hefur undanfarna tvo áratugi rekið löndunarþjónustuna Djúpaklett ehf. á Grundarfirði en fyrirtækið sinnir þjónustu við sjávarútveg, skip og fiskvinnslur.

Forsaga málsins er sú að árið 2013 lánaði Þórður Arek Niescier, fyrrnefndum eiganda Euro Market, 18 milljónir í tengslum við stofnun á bílaleigu. Eiginkona Þórðar er tengd Arek fjölskylduböndum, en þau eru bræðrabörn og ólust upp saman í Póllandi.

„Arek þessi reyndist Dóru konu minni alger klettur þegar ég lenti í mjög alvarlegu mótorhjólaslysi þann 30. júní 2012, mér var ekki hugað líf og Arek lánaði okkur allt sem hann átti á þessum tíma, Dóra þurfti að borga laun og ýmislegt og ég var að deyja uppi á spítala. Hann átti því stóra hönk upp í bakið á okkur. Það, sem og það að ég þekki Arek og treysti honum, var ástæða þess að ég lánaði honum þessa peninga.“

Líkt og Þórður bendir á var dregin sú ályktun að hann væri að þvo fíkniefnapeninga. Ekki hafi verið horft á þá staðreynd að Þórður lánaði Arek fjármagnið löngu áður en verslanir Euro Market voru stofnaðar.

„Þetta á að kallast peningaþvætti. Ég gaf þessar 18 milljónir árlega upp á skattframtali frá 2013 til 2017. Hver stundar peningaþvætti og gefur það upp til skatts, ég bara spyr?“

Níu með stöðu glæpamanna

Níu einstaklingar sem tengjast Þórði fengu einnig réttarstöðu grunaðs manns í tengslum við rannsókn málsins. Eiginkona hans og synir hans tveir voru kölluð til yfirheyrslu. Bræður eiginkonu hans og kona annars þeirra voru einnig yfirheyrð en þau voru í vinnu hjá Þórði á árum áður. Þá drógust bókhaldari Þórðar og pólskur vinur hans á Grundarfirði einnig inn í málið.

Við yfirheyrslur var eiginkona Þórðar til að mynda spurð hvers vegna þau hjón væru hvort með sinn bankareikninginn. Þá var yngri sonur Þórðar spurður að því hvort að bróðir hans hefði lánað honum 200 þúsund krónur árið 2013. Líkt og Þórður bendir á var auðveldlega hægt að nálgast þær upplýsingar á bankayfirliti sem lögreglan hafði undir höndum.

„Bara ég, vinir mínir og þeir sem mér tengjast, níu manns, vorum með stöðu glæpamanna. Fórum öll í yfirheyrslu hjá lögreglu með þá stöðu. Sumt fólk bregst ekki vel við slíku, slíkt byggir ekki upp sjálfstraust. Og allt af því að ég lánaði Arek peninga, allt uppgefið,“ segir Þórður sem veit til þess að sími hans hafi verið hleraður í tengslum við rannsókn málsins.

„Ég er í bisness á Íslandi og á í viðskiptum við mörg af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það kemur sér að sjálfsögðu illa fyrir mig ef þeir áætla að ég tengist fíkniefnaviðskiptum,“ segir Þórður, en eftir málið kom sá hann sig knúinn til að hringja í marga af viðskiptavinum sínum. „Ég sagði við þá að ég vildi ekki að þeir myndu frétta þetta utan úr bæ. Ég vildi láta þá vita að ég tengdist þessu máli ekkert.“

Með þykkan skráp

Í febrúar síðastliðnum barst Þórði bréf frá Skattrannsóknarstjóra ríkisins þar sem tilkynnt var að rannsókn málsins væri lokið hjá embættinu. Engin athugasemd gerð við nokkra aðgerð eða færslu. „Ég er ekki viss um að biskupsembættið á Íslandi kæmist í gegnum slíka skoðun.“

Þórður segist vera harðgerður maður eftir að hafa verið í viðskiptum í þrjá áratugi, með viðkomu í pólitík. Hann sé því ef til vill með þykkari skráp en margir aðrir. Það sama gildi þó ekki um alla sem fengu stöðu grunaðs manns í málinu.

„Ég hef þegar þurft að leggja fram rúmlega þrjár milljónir vegna málsins. Ég bý að því að vera skuldlaus og í góðri stöðu fjárhagslega. En hvað ef ég væri það ekki? Hvernig hefði ég þá getað staðið undir þessu,“ spyr Þórður.

„Ég veit um fólk sem hefur varla farið út úr húsi, það skammast sín svo fyrir að vera bendlað við fíkniefni og peningaþvætti. Einn drengur sem vann í búðinni hjá Arek mun aldrei ná sér. Hann vinnur svona svipaða vinnu hjá Arek eins og Piotr vinnur hjá mér, sér ekki um peningamál en sér um að vinnan sé framkvæmd. Hann var settur í gæsluvarðhald yfir jólin 2018. Hann sá ekki börnin sín þau jól, hann hefur varla farið út úr húsi eftir að honum var sleppt, talar enn varla við nokkurn mann. Hann mun aldrei ná sér. Vald ber að umgangast með varúð,“ ritaði Þórður meðal annars í fyrrnefndri færslu.

Þórður bendir á að enn hafi engin ákæra verið gefin út í málinu. Á meðan eru allir haldlagðir fjármunir í geymslu ríkisins og sömuleiðis eru allar eignir enn frystar.

„Það er ljóst að þegar Ríkislögreglustjóri gefur það út að þessu „máli“ sé endanlega lokið að kröfur á ríkissjóð munu nema tugum milljóna, að algeru lágmarki. Bara minn kostnaður er komin í um þrjár milljónir. Kostnaður við störf þessara barna hjá Ríkislögreglustjóra hlýtur að hlaupa á tugum milljóna einnig, það er gott að vita í hvað skatturinn okkar fer. Ég og öll mín fjölskylda er enn með „stöðu grunaðs manns“, og hvenær því lýkur veit engin. Ég ekki bara spái því, ég veit, að engin ákæra verður nokkurn tímann gefin út. Þeir fundu „glæpamennina“ en eru enn að leita að glæpnum,“ ritaði Þórður í færslunni.

Þórður hyggst leita réttar síns í málinu, en það getur hann ekki gert á meðan hann hefur réttarstöðu grunaðs manns.

„Daginn sem þessu lýkur þá mun ég hefja málsókn. Að sjálfsögðu mun ég gera það. Þetta hlýtur að vera fyrsta stóra fíkniefnamálið þar sem engin fíkniefni eru til staðar, enginn kaupandi og engin söluaðili. Miðað við hvernig þetta var presenterað þá var þetta stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Andstaða Sjálfstæðisflokksins við að tryggja orkuöryggi var ástæðan fyrir framboði Höllu Hrundar

Andstaða Sjálfstæðisflokksins við að tryggja orkuöryggi var ástæðan fyrir framboði Höllu Hrundar
Fréttir
Í gær

Tveir unglingar réðust á erlenda ferðamenn á Skólavörðustíg – Annar stuttur en hinn feitur

Tveir unglingar réðust á erlenda ferðamenn á Skólavörðustíg – Annar stuttur en hinn feitur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“

Forviða ferðamaður þegar vél EasyJet flaug yfir eldgosið – „Lífið mitt hefur náð hámarki“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“