Þegar að er gáð kemur í ljós að Tanja er sjálf eigandi Social Kaktus ehf. Hún á 50 prósenta hlut í fyrirtækinu en hin 50 prósentin á María Hólmgrímsdóttir. Tanja og María hafa áður starfað saman en árið 2016 stofnuðu þær umboðs- og auglýsingastofuna Eylenda.
Tanja er sjálf mjög vinsæl á samfélagsmiðlum og hefur til að mynda rúmlega 32 þúsund fylgjendur á Instagram síðu sinni.
Tanja kemur fram í fjölda auglýsinga frá Bossbabe.is en hvergi er að sjá að hún sé eigandi í fyrirtækinu og hafi því beinar tekjur af sölu varningsins. Í færslu á Instagram-reikningi hennar frá 2. apríl síðastliðnum birtir hún mynd af sér með spennur frá versluninni. Í færslunni segir:
„Fékk fallegar spennur í gjöf frá BossBabe og ákvað að sýna þér í IGTV.“
Tanja fékk sem sagt spennurnar í gjöf frá eigin fyrirtæki.
Við aðra mynd af Tönju með spennurnar svarar síðan Bossbabe.is sjálft:
„Spennurnar fara þér rosalega vel.“
DV hefur ekki vitneskju um hvort Tanja sjálf svaraði fyrir Bossbabe.is, María, meðeigandi hennar, eða unnusti Tönju, Egill Fannar Halldórsson. En símanúmerið á Bossbabe.is er skráð á fyrirtæki hans, Wake up Reykjavík sf.
Á síðunni Bossbabe.is er að finna ýmiss konar skartgripi og glingur. Athygli vekur að sams konar skartgripi er hægt að finna á netverslunum erlendis, til dæmis kínverskum síðum á borð við Aliexpress. Það sem vekur einnig athygli er gríðarlegur verðmunur á vörunum.
Svo dæmi sé tekið er hægt að kaupa Woven Twist Hoops, silfurlitaða eyrnalokka á 2.490 krónur hjá Bossbabe.is. Nákvæmlega eins lokka er hægt að fá hjá búðinni Onekiss á Aliexpress á aðeins tæplega 2,5 dollara, 290 krónur á seðlagengi dagsins.
Munurinn á verðinu er því vel ríflega áttfaldur, sem verður að teljast ansi mikið í ljósi þess að á milli Íslands og Kína var undirritaður fríverslunarsamningur vorið 2013.
Þegar blaðamaður DV hringdi í Tönju til að spyrjast fyrir um málið var skellt á áður en hann náði að klára orðið Bossbabe.