Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Þar kemur fram að þessar hugmyndir WOW air hafi verið ræddar óformlega en mjög ósennilegt sé að ríkið muni ábyrgjast lán til flugfélagsins.
Þá kemur fram að mikil óvissa ríki um gang viðræðna WOW air og Indigo Partners, sem er bandarískt fjárfestingafélag, og sé nú tvísýnna en áður að af kaupum Indigo á WOW air verði. Stjórnvöld eru sögð vel upplýst um gang mál.
Markaðurinn segist einnig hafa heimildir fyrir að undanfarið hafi staði yfir óformlegar þreifingar á milli fulltrúa WOW air og Icelandair Group um aðkomu Icelandair að WOW air.
WOW air er sagt eiga nægt lausafé til að halda rekstrinum gangandi fram yfir næstu mánaðarmót. Markaðurinn segist hafa heimildir fyrir að vegna skuldar WOW air við Isavia þurfi ein vél úr flugflota félagsins alltaf að vera á Keflavíkurflugvelli til að Isavia geti tekið hana sem tryggingu ef WOW air lendir í greiðsluerfiðleikum.