Á Costa Blanca svæðinu á Spáni er hægt að kaupa fasteign sem kostar einungis þriðjung af verði fasteignar á Íslandi. Þetta kemur fram í sjónvarpsþættinum Heim til Spánar sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld.
Fram kemur í þættinum að á Costa Blanca svæðinu sé meðal annars sé hægt að festa kaup á 270 fermetra einbýlishúsi á 50 til 55 milljónir króna. Þá er hægt að kaupa 150 fermetra einbýli á 30 milljónir, svipað verð og fyrir einstaklingsíbúð í miðborg Reykjavíkur.
Þá er einnig að fjárfesta í tveggja og þriggja herbergja lúxus íbúðum í fjölbýli á 24 til 28 milljónir króna þar sem ýmiskonar fríðindi eru innifalin, á borð við aðgang að heilsulind og líkamsræktarstöð.
Tugþúsundir Íslendinga hafa fjárfest í fasteignum á Spáni undanfarin ár enda þykir lánafyrirkomulagið töluvert einfaldara en á klakanum.
Leiguverð þykir sömuleiðis viðráðanlegra en einn af þeim sem hafa flust búferlum er Guðni Már Henningsson fyrrum útvarpsmaður. Þetta kom fram í grein DV í apríl síðastliðnum en þar sagðist Guðni vera að flytja til Tenerife á Spáni.
Fram kom að hann hygðist leigja fjögurra herbergja, rúmgóða íbúð með húsgögnum.
„Fyrir þetta borga ég sjötíu þúsund krónur á mánuði,“ segir hann en gera má ráð fyrir því að sambærileg íbúð í höfuðborginni myndi leigjast á um 250-280 þúsund krónur eða þar um bil.
„Það er einföld skýring. Það vita það allir að leigumarkaður hér, hann er bara gaggalagú. Og íbúð sem kostaði fjórar milljónir fyrir tíu árum hún er seld á sextíu milljónir í dag. Launin hafa lítið sem ekkert hækkað þannig að ég hef ekki efni á því að búa á Íslandi lengur.“