fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024

Vísindakirkjan herjar á Borgfirðinga: „Beit hann af mér með þumbaraskap og almennri ókurteisi“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 17. ágúst 2018 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vísindakirkjan hefur verið eitt af umdeildustu trúfélögum heims undanfarna áratugi og í mörgum löndum hefur hún ekki heimild til að starfa sem slíkt. Telja margir að um hreinan heilaþvott og fjárplógsstarfsemi sé að ræða, þaulskipulagt af æðstu mönnum kirkjunnar. Lítið hefur farið fyrir Vísindakirkjunni á Íslandi undanfarin ár. Nú kann það að vera að breytast því íbúar á Borgarfirði eystra urðu varir við dularfullan mann sem reyndi að selja þeim kennisetningar kirkjunnar.

 

Gekk milli húsa í þorpinu

„Ég var að vinna og mátti lítið vera að því að tala við hann þannig að ég beit hann af mér með þumbaraskap og almennri ókurteisi,“ segir Björgvin Ólafsson frá Borgarfirði eystra og hlær.

„Maðurinn kynnti sig ekki en spurði mig eitthvað á þessa leið: Má ég tala við þig af heilum hug? En ég afþakkaði það. Þá reyndi hann að kynna mér þessa bók, Dianetics, en hann kynnti sig ekki sem sendiboða Vísindakirkjunnar.“

Maðurinn var Íslendingur, milli fimmtugs og sextugs, og einn á ferð. Gekk hann um þorpið, bankaði upp á hjá fólki og ræddi við íbúa um þessa bók, Dianetics. Suma stoppaði hann úti á götu til að ræða um þetta. Eftir því sem DV kemst næst gekk trúboðið ekki sérlega vel í þorpinu sem telur aðeins um eitt hundrað manns.

Bás á Austurstræti

Dianetics: The Modern Science of Mental Health er öndvegisrit Vísindakirkjunnar, skrifað af stofnandanum L. Ron Hubbard árið 1950. Hubbard var vel þekktur fyrir vísindaskáldskap sem hann skrifaði fyrir svokölluð pulp-tímarit á fjórða og fimmta áratugnum líkt og Isaac Asimov, H.P. Lovecraft og fleiri. Dianetics var upprunalega hugsuð sem sjálfshjálparbók en seinna stofnaði hann trúfélag í kringum hana.

Grundvöllur trúarinnar er sá að menn séu ódauðlegar verur sem nefnast þetur og ferðast frá líkama til líkama. Flestir hafi gleymt tilgangi sínum og iðkun trúarinnar hjálpi fólki að hreinsa hugann og gleyma slæmum minningum. Í kirkjunni geta safnaðarmeðlimir unnið sig upp andlegan metorðastiga með endurskoðun sem framkvæmd er með raftæki með tveimur pinnum. Vísindasamfélagið hefur gagnrýnt þessar aðferðir kirkjunnar og segja hana eiga enga stoð í raunveruleikanum. Þær minni fremur á þann vísindaskáldskap sem Hubbard skrifaði í pulp-blöðin.

Miklar kvaðir eru lagðar á safnaðarmeðlimi og þeir sem segja sig úr söfnuðinum eru útskúfaðir af þeim sem sitja eftir. Heilu fjölskyldurnar hafa splundrast vegna þessa. Forsvarsmenn kirkjunnar ráðast einnig mjög harkalega gegn þeim sem gagnrýna hana, sérstaklega fyrrverandi meðlimum. Víða er kirkjan ekki viðurkennd sem trúfélag, til dæmis í Þýskalandi þar sem hún hefur verið beinlínis talin hættuleg fjárplógsstarfsemi. Forkólfar Vísindakirkjunnar, David Miscavige og fleiri, hafa einmitt efnast mjög í gegnum tíðina, sérstaklega vegna skattaundanþága. Frægar Hollywood-stjörnur á borð við Tom Cruise, John Travolta og Juliette Lewis eru iðkandi meðlimir.

„Ef ég hefði vitað að hann væri frá Vísindakirkjunni þá hefði ég spurt hann hvernig Tom Cruise hefði það,“ segir Björgvin kíminn. „En ég kveikti ekkert á því. Þegar ég var ungur maður var þetta mjög vinsælt hérna á Íslandi. Fólk úr kirkjunni var með bás á Austurstræti þar sem það var með spurningalista fyrir fólk og svo var verið að láta fólk taka þessi próf.“

 

Átján ára brandari

Vísindakirkjan er ekki skráð trúfélag á Íslandi en til er áhugamannafélag sem ber nafn hennar, stofnað árið 2000. Samkvæmt stofngögnum þess er tilgangur félagsins að „koma á opinberum samskiptum við alheimshreyfingu vísindakirkjunnar og breiða út boðskap hennar.“ Þegar DV hafði samband fengust hins vegar þau svör að félagið hefði aldrei haft neina starfsemi og aldrei skilað neinum ársreikningum.

Gunnar Már Karlsson, lyfjafræðingur og einn af fimm stofnendum félagsins, segist ekkert vita um manninn dularfulla á Borgarfirði eystra þegar DV leitaði til hans. Hann segir:

„Þetta félag okkar hefur verið stofnað sem eitthvert grín í gamla daga. Ég man ekki einu sinni eftir þessu.“

Annar þeirra, Arnór Geir Jónsson, sagði í viðtali við DV árið 2008 að hann væri ekki trúaður á boðskap Vísindakirkjunnar en myndi fagna komu hennar ef svo bæri undir. „Þegar það var rætt að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni fannst mér og nokkrum félögum kjörið að stofna Vísindakirkjuna í þeim tilgangi að sækja um að reisa stórt félagsheimili fyrir kirkjuna. Þetta er nú lengsti brandari sem við höfum haldið gangandi,“ sagði Arnór.

Samkvæmt bæklingum sem Vísindakirkjan hefur gefið út hefur hún starfsemi á Íslandi. Næsta musteri hennar er hins vegar langt í burtu, í borginni Birmingham í Bretlandi. Hvort við fáum að sjá meira af útsendurum Vísindakirkjunnar á Íslandi á komandi árum verður að koma í ljós.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –

Lögreglumenn ráku upp stór augu á Sæbraut og fengu skýringar á fyrirbærinu frá Stjörnu-Sævari –
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Öllu tjaldað til fyrir afmæli hundsins

Öllu tjaldað til fyrir afmæli hundsins
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Magnaðar vörslur De Gea um helgina – Sjáðu hvað gerðist

Magnaðar vörslur De Gea um helgina – Sjáðu hvað gerðist
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Ragga Sveins til Eldrún Pilates

Ragga Sveins til Eldrún Pilates
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Alex gisti í dýrustu lúxusvillu landsins – Sjáðu hvað nóttin kostar

Alex gisti í dýrustu lúxusvillu landsins – Sjáðu hvað nóttin kostar
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Rann á grjóti og við tóku skelfilegar 20 klukkustundir

Rann á grjóti og við tóku skelfilegar 20 klukkustundir
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Óvirðing Ed Sheeran í beinni útsendingu í gær vekur upp reiði – „Eigingjarn trúður“

Óvirðing Ed Sheeran í beinni útsendingu í gær vekur upp reiði – „Eigingjarn trúður“