Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur fylgst grannt með kosningum í áratugi og komið fram í öllum kosningaútsendingum síðan 1986, að einum undanskildum. DV spurði Ólaf um stöðuna í sveitarstjórnarmálunum.
Býstu við því að meirihlutinn haldi?
„Það er ómögulegt að segja. Þetta er mjög tvísýnt og könnunum ber ekki saman. Það er erfitt að segja til um það hvaða könnun er réttust og sennilega er þetta innan skekkjumarka.“
Getur Eyþór myndað meirihluta með Miðflokki og Viðreisn?
„Ólíklegt er að þessir þrír flokkar fái meirihluta og þó þeir nái því þá virðast Viðreisn eiga meiri málefnalega samleið með núverandi meirihlutaflokkum. En það er ekki hægt að útiloka neitt í þessu. Ef meirihlutinn fellur þá verður Viðreisn í algerri lykilstöðu.“
Kemur einhver til greina sem borgarstjóri annar en Dagur og Eyþór?
„Það getur alveg komið til álita þó þeir séu líklegastir. Til dæmis Þórdís Lóa eða utanaðkomandi ráðinn borgarstjóri.“
Er hætta á stjórnarkreppu, til dæmis ef Sósíalistar lenda í oddastöðu?
„Ég á nú ekki von á því. Það er ekki hægt að rjúfa borgarstjórn, hún situr til fjögurra ára. Mér finnst langlíklegast að menn finni flöt á einhverju meirihlutasamstarfi.“
Býstu við betri eða verri kjörsókn?
„Það er of snemmt að segja til um en vonandi verður hún ekki lakari en síðast. Hún var sú lægsta í sögunni í Reykjavík þá.“
En að öðrum sveitarfélögum, býstu við því að margir meirihlutar falli?
„Miðað við kannanir eru talsvert margir meirihlutar í hættu á að falla, til dæmis á Akureyri og í Vestmannaeyjum.“
Í nokkrum sveitar félögum hefur Sjálfstæðisflokkurinn klofnað, til dæmis Seltjarnarnesi, Vestmannaeyjum og Norðurþingi. Hvað veldur?
„Þetta eru hefðbundnar og staðbundnar innanflokksdeilur sem virðast snúast fremur um persónur heldur en málefni. Við höfum oft séð þetta áður, ekki aðeins í Sjálfstæðisflokknum heldur öðrum líka. En kannski eru fleiri klofningar núna en oft áður.“