„Við fundum þetta rétt áðan. Þetta lá á víðavangi og var ekki falið en þetta var í svörtum plastpoka“ sagði Lovísa í samtali við DV. „Við skildum það eftir, tókum mynd og létum vita af þessu. Síðan ætlaði kona að fara og athuga með örmerkingu á hræinu en hún ætlaði ekki að fjarlægja það.“
Feðginin fundu hræið þar sem þau voru á göngu með hunda, aðeins frá Krýsuvíkurveginum.
„Mér brá svolítið við að sjá þetta. Fyrst sá ég litla fætur standandi út úr pokanum og hélt að þetta væri lamb. Svo sáum við að þetta var hundur og okkur sýndist þetta vera smáhundur. Þetta hefur ábyggilega verið þarna í einhverja mánuði eða ár. Við sáum í beinin og hræið var illa rotið. Það var mjög vond lykt af þessu. Ég er hrædd um að eigandinn hafi losað sig við þetta þarna en ég veit það ekki.“
Lovísa auglýsti fundinn á Facebook hópnum Týndir hundar og spurði hvort einhver kynni deili á hundinum. Það væri mjög sorglegt og ljótt að sjá svona. Hún fékk mikil viðbrögð frá öðrum í hópnum og fannst fólki erfitt að skilja hvernig væri hægt að fara svona með dýr.