Íbúar: 36.000
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar Framtíðar er í hættu, en síðarnefndi flokkurinn býður nú fram með Viðreisn. Síðast fengu þessir flokkar sjö af ellefu bæjarfulltrúum og mega því við að missa einn og kannanir benda til þess að sameiginlegi listinn fái aðeins einn fulltrúa. Þá veltur allt á Sjálfstæðisflokknum og þar hefur Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri staðið í ströngu undanfarið. Til dæmis hefur verið bent á há laun hans í samanburði við borgarstjóra stórborga út í heimi.
Níu listar bjóða fram í Kópavogi og mikil spenna ríkir um það hvort að Píratar, Vinstri Grænir og Miðflokkur nái inn manni.
Íbúar: 29.500
Sjálfstæðismenn náðu loks að hnekkja vinstrimeirihlutanum í Hafnarfirði árið 2014, í samstarfi við Bjarta Framtíð. Nú er sá flokkur horfinn úr bæjarpólitíkinni og Guðlaug Kristjánsdóttir, sem leiddi Bjarta Framtíð, hefur ekki náð að hífa Bæjarlistann í sömu hæðir. Miklar deilur hafa verið í bænum, meðal annars milli meirihlutaflokkanna, um byggingu íþróttamannvirkja.
Átta framboð eru í boði fyrir Hafnfirðinga og hafa Framsóknarmenn, Píratar og Miðflokksmenn allir verið að mælast með mann inni. Fylgi vinstriflokkanna, sem stýrðu bænum áður, virðist þó ætla að halda nokkuð óbreytt frá síðustu kosningum.
Íbúar: 4.500
Gæti það gerst að lengst starfandi meirihluti landsins falli? Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið einn við völd á Nesinu í 56 ár en sú einokun gæti verið rofin í kvöld. Árið 2014 missti flokkurinn nokkuð fylgi, en vann fjóra af sjö fulltrúum og það ár sótti Samfylkingin á. Nú er hart sótt að Sjálfstæðisflokknum frá tveimur hægri flokkum, sameiginlegum lista Viðreisnar og Neslistans og klofningi úr Sjálfstæðisflokknum sem nefnist Fyrir Seltjarnarnes. Þann lista leiðir Skafti Harðarson, Sjálfstæðismaður til áratuga og formaður Samtaka skattgreiðenda.
Íbúar: 4.300
Sjálfstæðisflokkurinn vann ótrúlegan sigur árið 2014 og fékk þá 73 prósent atkvæða og fimm af sjö bæjarfulltrúum. Landkrabbar hafa því talið að staða Elliða Vignissonar, bæjarstjóra, væri nokkuð traust. En ekki er allt sem sýnist og í vor fóru að berast fréttir af því að þreyta væri komin í flokkinn og ekki allir flokksmenn sáttir við stjórnunaraðferðir bæjarstjórans.
Fór svo að flokkurinn klofnaði og var stofnað nýtt framboð, Fyrir Heimaey, leitt af Írisi Róbertsdóttur. Skoðanakönnun í byrjun apríl sýndi það framboð með 41 prósent fylgi og Sjálfstæðisflokkinn aðeins með innan við helming að því fylgi sem hann fékk 2014. Vinstra fylgið hreyfðist ekki mikið. Elliði er í fimmta sæti hjá Sjálfstæðisflokknum og því á leið úr bæjarstjórn ef könnunin gefur rétta mynd af úrslitunum.
Íbúar: 18.800
Útlit er fyrir að eins manns meirihluti L-listans, Framsóknarflokks og Samfylkingar falli þar sem tveir síðarnefndu flokkarnir virðast vera að missa annan fulltrúa sinn ef marka má skoðanakannanir. L-listinn, sem vann hreinan meirihluta árið 2010 en tapaði miklu fjórum árum síðar, er að mælast með svipað fylgi nú og 2014.
Í sókn eru Sjálfstæðisflokkur, Píratar og Miðflokkurinn sem mældist með mann inni í könnunum áður en framboð var komið fram.
Íbúar: 9.000
Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, leiddi flokkinn í Árborg um nokkurt skeið og nú er flokkurinn í hreinum meirihluta í bænum með fimm af níu fulltrúum. Fimmti maður Sjálfstæðisflokksins stendur nú hins vegar mjög tæpt og er sótt að honum úr ýmsum áttum.
Fylgi vinstri flokkanna er svipað og það var árið 2014, Samfylking með tvo menn en Vinstri Grænir úti. Tvö ný öfl koma hins vegar af miklum krafti inn í bæjarpólitíkina, Miðflokkurinn og sameiginlegur listi Pírata og Viðreisnar sem nefnist Áfram Árborg. Mælast báðir þessir listar með bæjarfulltrúa.