Dermot Halpin, forseti TripAdvisor segir að Bókun muni spila stóra rullu í að auka vægi fyrirtækisins í almennri netumferð.
„Þetta markar tímamót fyrir fyrirtækið okkar. Við erum að færa okkur út fyrir grunnþjónustuna sem stærsti dreifingaraðilinn. Þessi vara verður hluti af mjög bjartri framtíð iðnaðarins, dregur úr sundrungu, bætir og einfaldar dreifingu og bætir innkaupaupplifun ferðamanna.“
Bókun ehf er staðsett á Íslandi en þjónustar ferðaþjónustufyrirtæki út um allan heim, bæði stór og smá. Höfuðstöðvar Bókunar munu ekki flytja úr landi við söluna og stjórnarmenn fyrirtækisins munu áfram leiða fyrirtækið. Þeir munu þó vinna náið með alþjóðadeild TripAdvisor og fjölgað verður í starfsmannahaldi hér á landi.
Hjalti Baldursson, stjórnarformaður Bókunar, segir að kaupin munu ekki hafa nein áhrif á þau fyrirtæki sem Bókun hefur samninga við. Kaupin geri Bókun mögulegt að þjóna fólki hvar sem er á jörðinni. Upphæð eða skilmálar samningsins verða ekki gefnir upp.