Helgi Björns hafði rangt fyrir sér. Það bera sig ekki allir vel þessa dagana. Hvort sem það eru Ingjaldsfíflin sem fara ekki eftir sóttvarnareglum, þeir sem eru orðnir þreyttir á þessu öllu saman, þeir sem eru að fara í sína þriðju sóttkví og jafnvel þríeykið er farið að láta að sjá.
Svarthöfði sjálfur er orðinn hundleiður á upplýsingaóreiðunni og taugaveikluninni sem henni fylgir. Sjálfur ber hann alltaf grímu, og gerði löngu áður en COVID-19 skall á. Svarthöfði kærir sig jafnframt lítið um að vera í návígi við ókunnuga sem bera ekki grímu. Þess vegna kættist Svarthöfði nokkuð þegar einhvers konar grímuskyldu átti að koma á í verslunum. Bros Svarthöfða var þó fljótt að breytast í grettu. Skilaboð Þórólfs voru þessi: „Skylt að bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að tryggja a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.“
Hvað í fjandanum þýðir það? Grímuskylda í Melabúðinni en ekki í Krónunni á Granda? Grímuskylda í Bónus á Smáratorgi en ekki Bónus á Nýbýlavegi? Svo eru Íslendingar allt of miklar brussur til að geta fyllilega tryggt tvo metra. Allir eru voða duglegir og prúðir í biðröðunum, en inni í verslunum gilda lögmál frumskógarins. Fólk gerir hluti eins og að troðast fram fyrir hvert annað í mjólkurkælinum til að ná örugglega síðustu hrísmjólkinni með sultu. Eða velur sér þrengsta ganginn í búðinni til að stoppa með risakörfu og tala við Stínu frænku sem þeir hafa ekki hitt í sex mánuði, líklega vegna þess að Stína er leiðinleg en íslenska kurteisin krefst þess að menn stoppi í 5-7 mínútur og tali um nákvæmlega ekki fokking neitt
Á meðan þarf fólk að fara allan hringinn til að komast að matnum sem það vantar, eða teygja sig yfir Stínu og félaga, eða ganga þétt upp að þeim og hvæsa AFSAKKIÐÐÐ!? Við allt þetta þarf að brjóta 2 metra regluna. Stína frænka má bara fara til fjandans, það er alveg hægt að senda henni skilaboð á Facebook. Og ef allir væru með grímu þá hefði maður líklega ekki þekkt Stínu frænku og hún ekki þekkt þig. Svona óskýr fyrirmæli skapa bara stress og leiðindi. Hinir hræddu og kvíðnu sem bera grímuna líkt og um helgiathöfn sé að ræða ættu að geta treyst því að komast í verslun án þess að mæta grímulausu fólki sem getur ekki virt tvo metra nema bara rétt í biðröðinni.
Tveggja metra reglan gildir alls staðar í verslunum. Og það þýðir heldur ekkert að passa tvo metra í biðröð bara til að vera svo hrúgað saman með mörgum viðskiptavinum til að koma vörunum í pokann
Það er bara greinilega svo að Íslendingar eru eins og lítil þrjósk börn. Eitt sinn bað Svarthöfði afkvæmi um að gæta þess að brjóta ekki múmínbollann hennar mömmu. Stuttu síðar heyrðist brothljóð úr eldhúsinu. Afkvæmið rölti svo bara rólega fram, virtist hvorki skömmustulegt né niðurdregið. „Þetta er allt í lagi, pabbi. Ég braut bara venjulegan bolla.“ Afkvæmið þurfti skýrari reglur. Íslendingar þurfa það líka