fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024

„Á Íslandi geta allir lifað eins og kóngar, svo lengi sem við erum ekki of heimtufrek“

Svarthöfði
Sunnudaginn 2. júní 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði hefur ekki farið varhluta af því góðæri sem nú ríkir og ekki sér fyrir endann á. Lifir Svarthöfði nú í vellystingum og veit ekki aura sinna tal. Má segja að Svarthöfði sé orðinn sannkallaður ríkisbubbi og hluti af þotuliðinu. Getur Svarthöfði nefnt ótal dæmi því til stuðnings.

Hvað varðar húsakostinn þá hefur hann reyndar lítið breyst. Svarthöfði hefur dvalið í sömu kytrunni í hartnær fjörutíu ár. En tvisvar hefur blokkin verið máluð og í eitt skipti var skipt um teppi í sameigninni. Var það mun fallegra teppi en það sem áður var. Hér er þó búið að leggja ljósleiðara sem var sannkölluð andlitslyfting.

Svarthöfði hefur nýlega uppfært fararskjótann og þýtur nú um stræti og torg á umhverfisvænum kosti. Gamla Mazdan endaði hjá Vöku í fyrra eftir 25 ára þjónustu. Hún var löngu hætt að svara kostnaði. Í staðinn keypti Svarthöfði reiðhjól á uppboði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Mongoose að gerð. Í verstu veðrunum tekur Svarthöfði strætó.

Svarthöfði ferðast líkt og annað ríkt og frægt fólk. Til framandi staða og gerir þá vel við sig í mat og drykk. Skítt með Mumbai og Manhattan. Munaðinn finnur Svarthöfði í Munaðarnesi. Í fyrrasumar fékk Svarthöfði þar leigðan bústað af Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Splæsti líka í dýrindis svínakótelettur, maríneraðar að hætti Sláturfélags Suðurlands. Gasið tæmdist reyndar þegar letturnar voru hálfhráar en Svarthöfði gat skolað þeim niður með ísköldum Slots Guld úr bauk.

Klæðnaður Svarthöfða hefur einnig stórbatnað eftir hrun. Sérstaklega eftir að úrvalið jókst til muna á nytjamörkuðum borgarinnar. Allur borðbúnaður, húsgögn og stofustáss einnig. Listaverkin málar Svarthöfði sjálfur enda er nútímalist langtum merkilegri en verk Kjarvals eða Ásgríms.

Svarthöfði er prýðisgott dæmi um að brauðmolakenningin er sönn. Hér drýpur smjör af hverju strái og valdamenn þjóðarinnar hafa vart undan að moka molunum ofan í almenning. Og við höfum vart undan að gleypa þá líkt og endur á Reykjavíkurtjörn. Á Íslandi geta allir lifað eins og kóngar, svo lengi sem við erum ekki of heimtufrek og leyfum ríkasta fólkinu að fá fyrst að borða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United

Lokaorð Van Nistelrooy til leikmanna Manchester United
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina

Grét í búningsklefanum í hálfleik um helgina
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Juventus byrjað að eltast við leikmann United – Vilja hann á láni í janúar

Juventus byrjað að eltast við leikmann United – Vilja hann á láni í janúar
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Áður heilsuhraustur unglingur þungt haldinn vegna fuglaflensu

Áður heilsuhraustur unglingur þungt haldinn vegna fuglaflensu