Óhætt er að segja að Hatarahópurinn hafi slegið í gegn í Ísrael og er okkar framlag það umtalaðasta af öllum. Stórir fjölmiðlar sem lesnir eru um allan heim hafa sýnt þeim áhuga, þar á meðal The Guardian og The Economist. Hatari hefur verið í áttunda sæti hjá veðbönkum en nú eru sumir farnir að spá þeim betra gengi, jafnvel sigrinum. Íslendingar eru ein af þeim þjóðum sem hafa keppt lengst án þess að vinna. Ekkert framlag okkar hefur komist upp úr undankeppni síðan Pollapönk árið 2014. DV hefur fulla trú á að Hatari fari langt í keppninni.
Sveitarfélög hafa tekið NPA-reglugerðina um réttindi fatlaðs fólks misföstum tökum. Kópavogur er eitt af þeim sveitarfélögum sem hafa trassað að innleiða hana og kemur það niður á fötluðu fólki sem þar býr. Ásta Dís Ástráðsdóttir var í viðtali hjá RÚV um málið, en hún er fjölfötluð og býr í Kópavogi. Seinkunin kemur niður á henni persónulega varðandi greiðslur á launum og orlofsuppbót. DV hvetur þau sveitarfélög sem vita upp á sig skömmina til að leiðrétta þetta óréttlæti sem fyrst.