Kvaðning – Skálmöld
Skálmöld spilar þjóðlegt víkingarokk og allir elska hljómsveitina, meira að segja eldra fólk sem aldrei hefur hlustað á þungarokk á ævinni. Lagið er grípandi og vígreift og myndi vekja gæsahúð í hvert einasta skipti á Laugardalsvellinum. Ókosturinn er að lagið er átta mínútur að lengd og yrði því að skera niður.
Húsið og ég – Grafík
Veðurfræðingar hafa sagt okkur að búast við fleiri rigningarsumrum á komandi árum. Til að halda andlegri heilsu væri því kannski réttast fyrir þjóðina að gera rigninguna að bandamanni sínum. „Mér finnst rigningin góð“ yrði hin nýja sjálfsmynd Íslendinga.
Immigrant Song – Led Zeppelin
Sumir myndu segja það óþjóðlegt að velja útlenskt lag sem þjóðsöng. En Immigrant Song var samið á Íslandi og um Ísland af stærstu rokkhljómsveit sögunnar. Við ættum að hampa því.
Söknuður – Villi Vill og Jóhann Helgason
Söknuður er flott lag sem allir þekkja, ekki bara Íslendingar heldur útlendingar líka í flutningi Josh Groban. Að gera Söknuð að þjóðsöng landsins myndi hjálpa Jóhanni Helgasyni höfundi í málaferlum sínum við norska ódáminn Rolf Lovland sem stal því.
Draumur um Nínu – Stefán og Eyfi
Fæstir Íslendingar kunna textann að Lofsöngnum en allir, hver einn og einasti, getur sungið Nínu. Selma og Jóhanna Guðrún komust í annað sæti en Draumur um Nínu er og verður ávallt Eurovision-lagið okkar.