Svarthöfði hjó eftir því í vikunni að Ásmundur Einar Daðason hefði verið gerður að nýjum félags- og barnamálaráðherra og óskar honum innilega til hamingju með það. Ásmundur er vel að því kominn. Svarthöfði er ekki alveg með það á hreinu að hvaða leyti málefni barna voru ekki undir hans umsjón fyrir þennan nýja titil. En það gildir einu. Vonandi fær hann feita launahækkun fyrir að bæta þessu við sig.
Ásmundur er í rauninni sérstaklega hentugur barnamálaráðherra. Hann er kallaður Dalafressinn og klæðist stundum grænum og mjög líflegum jakkafötum. Börnin tengja við þetta.
Svarthöfði hefur einnig tekið eftir vaxandi óánægju almennings með Krakkafréttirnar á RÚV. Eða allavega óánægju Möggu Frikka og Jóns Vals Jenssonar með þær. Það sér hvert mannsbarn að einhver Göbbels uppi í Efstaleiti notar barnaefnið til að menga ómótaðar barnssálir til að skapa framtíðar herskara „rétthugsandi“ fólks.
Nú er lag, að mati Svarthöfða, að ríkisstjórnin láti sverfa til stáls og hreinsi út liðið sem stýrir barnaefninu. Þessir smákóngar á RÚV hafa allt of lengi fengið að stunda sinn heilaþvott óáreittir.
Ásmundur sjálfur ætti í krafti sinnar nýju stöðu að fá að stýra barnaefninu milliliðalaust og er borðleggjandi að hann myndi leika í því sjálfur. Krakkafréttirnar ætti auðvitað leggja niður enda þurfa börn ekkert að vita hvað er að gerast í samfélaginu. Svarthöfði sér fyrir sér að Ásmundur verði með vikulegan söngþátt fyrir börnin með frumsömdu efni. Hann yrði ekki lengi að hrista fram úr erminni lög á borð við „Allir eru að fá sér“, „Vegurinn heim til mín“, „Skattar hafa verið greiddir“, „Gubbulagið“ og „Þórólfur á mig.“ Ásmundur gæti annaðhvort spilað undir á kassagítar eða rappað þetta eins og er nýmóðins.
Fleiri ráðherrar mættu bæta titlum við sig. Til dæmis Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þetta er allt of þjált og hún getur vel bætt við sig tveimur til þremur stólum. Einnig Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála.