Davíð Þór er öðruvísi prestur, svo vægt sé til orða tekið, og það er einmitt það sem þjóðkirkjan þarf á að halda ef hún ætlar að lifa 21. öldina af. Margir setja fortíð hans sem ritstjóra „klámblaðs“ fyrir sig en engum dylst að Davíð stendur á sínu og yrði óhræddur við að taka á óþægilegum málum.
Geir verður seint sakaður um að vera sá frjálslyndasti innan kirkjunnar, til dæmis þegar kemur að málefnum samkynhneigðra. En Geir sýndi það, þegar mál Ólafs Skúlasonar kom upp, að hann hefur bein í nefinu. Herra Ólafur var nærri búinn að ráðast á Geir þegar hann neitaði að stinga ásökunum kvenna um kynferðisáreitni undir stól.
Það yrði djarft að gera hinn japanska Toma að biskupi Íslands. Hann hefur aðra sýn á mál en flestir aðrir og hefur verið einn dyggasti baráttumaður kirkjunnar fyrir mannréttindum hælisleitenda. Með því að gera Toma að biskupi myndi þjóðkirkjan fá umtalsvert meiri samúð og slaka frá þeim hópi sem harðast hefur gagnrýnt hana.
Vigfús Bjarni er stjarna í prestastétt. Svo mikil eftirspurn er eftir Vigfúsi að 500 manns skrifuðu undir lista þar sem skorað var á hann að bjóða sig fram til forseta Íslands árið 2016. Tilkynnti hann í kjölfarið framboð sitt frammi fyrir húsfylli á Hótel Borg í kjölfarið. Um mánuði síðar dró hann framboðið hins vegar til baka.
Sá biskup sem nú situr og forveri hans hafa verið taldir frekar litlausar persónur og lítið herskáar. Í þeirra tíð hefur sóknarbörnum farið fækkandi, ár frá ári, sem sýnir okkur að vörn er ekki alltaf besta vörnin. Ef kirkjan vill snúa þessari þróun við væri kannski réttast að fá séra Örn Bárð til starfans. Allir vita að hann myndi láta sverfa til stáls, eins og hann sýndi þegar hann líkti samtökunum Vantrú við hryðjuverkasamtökin ISIS.