fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Borgaryfirvöld í Mekka frjálslyndisins í Bandaríkjunum ætla að biðja alla svarta íbúa afsökunar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 16. febrúar 2024 22:30

San Francisco en maðurinn var hans

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

San Francisco í Bandaríkjunum hefur lengi verið eitt helsta vígi frjálslyndis í landinu. Þar hefur til að mynda hinsegin fólk átt sitt helsta skjól í Bandaríkjunum. Borgin var helsta vígi hippa og þar hafa frjálslynd viðhorf lengi átt upp á pallborðið. Demókratar hafa lengi ráðið lögum og lofum í borgarstjórn. Frjálslyndið virðist þó ekki hafa verið einhlítt í borginni. Borgaryfirvöld hafa nú í hyggju að biðja alla svarta íbúa, sem í Bandaríkjunum eru yfirleitt kallaðir „African-Americans“, borgarinnar afsökunar á þeirri mismunun sem þeir hafa þurft að sæta undanfarna áratugi af hálfu borgaryfirvalda.

Tillaga þessa efnis var tekin til fyrstu umræðu á fundi borgarstjórnar San Francisco í gær. Í tillögunni felst að borgaryfirvöld biðji svarta íbúa afsökunar á því að hafa neytt þá til að flytja úr hverfum sínum, mismununar af hálfu lögreglunnar og undirfjármögnun grunnþjónustu.

Starfshópur á vegum borgarinnar mælti með því að auk afsökunarbeiðninnar fengju svartir íbúar borgarinnar greiddar skaðabætur.

Borgarstjórinn London Breed sem sjálf er dökk á hörund er hins vegar á móti því að borgin greiði slíkar bætur. Hún segir að slíkt verði að leysa á vettvangi Kaliforníu-ríkis, þar sem San Francisco er staðsett, eða bandaríska alríkisins. Breed hefur þó beitt sér fyrir miklum fjárveitingum til samfélaga svartra íbúa borgarinnar.

Segja afsökunarbeiðni ekki nóg

Í tillögunni sem lögð hefur verið fyrir borgarstjórn segir meðal annars að yfirvöld í San Francisco hafi í marga áratugi beitt sér fyrir reglum og stefnu sem falið hafi í sér mismunun í garð svartra.

Svartir aðgerðasinnar sem hafa beitt sér fyrir því að hlutur þessara íbúa borgarinnar verði leiðréttur segja afsökunarbeiðni ekki vera fullnægjandi til að bæta fyrir áratuga mismunun.

Einn þeirra, sem er sjálfur fyrrverandi borgarfulltrúi, segir nóg komið af samtölum og afsökunarbeiðni myndi bara sykurhúða vandamálið. Hann bendir á að svörtum íbúum borgarinnar hafi fækkað hlutfallslega og segir að borgin ætti að skammast sín fyrir þá þróun.

Vel þekkt er að fasteignaverð í San Francisco er mjög hátt og meðaltekjur á mann með þeim hæstu í öllum borgum Bandaríkjanna. Svartir íbúar, sem eru líklegri til að hafa lægri tekjur, eiga því enn erfiðara um vik með að hafa efni á að búa í borginni.

Allir borgarfulltrúar San Francisco eru meðflutningsmenn að tillögunni og því þykir afar líklegt að hún verði samþykkt.

Markviss mismunun á ýmsum sviðum

Í tillögunni er meðal annars rakið hvernig markvisst var fjárfest í hverfum borgarinnar, á 20. öld, þar sem hvítt fólk var í meirihluta á meðan hverfi svartra voru skilin eftir. Dæmi hafa verið um að svartir íbúar úr heilu hverfunum hafi verið hraktir burt svo hægt væri að byggja nýtt og dýrara húsnæði sem þeir höfðu ekki efni á að búa í.

Í tillögunni segir enn fremur að svartir íbúar San Francisco verði enn í dag fyrir mismunun á sviði atvinnumála, húsnæðismála, í menntakerfinu, heilsugæslu og í réttarkerfinu.

Nettó eign svartra fjölskyldna, að meðaltali, er tæplega sjöfalt minni en nettó eign hvítra fjölskyldna. Fátækt meðal svartra íbúa er að meðaltali þrefalt meiri en meðal íbúa borgarinnar í heild.

Árið 2022 voru svartir íbúar 25 sinnum líklegri en hvítt fólk til að verða fyrir valdbeitingu af hálfu lögreglunnar. Svart fólk er aðeins um 6 prósent af íbúum borgarinnar en 35 prósent allra þeirra sem handteknir eru og 38 prósent heimilislausra.

Verði tillagan samþykkt yrði San Francisco ekki fyrsta borg Bandaríkjanna til að biðjast afsökunar á því að hafa mismunað svörtum íbúum sínum. Boston gerði það 2022 og níu ríki Bandaríkjanna hafa gert það.

Borgarfulltrúinn Shamann Walton hefur forystu um framlagningu tillögunnar. Hann segir að afsökunarbeiðni yrði mikilvægt skref í þá átt að bæta stöðu svartra íbúa San Francisco en hann muni halda áfram að beita sér fyrir greiðslu skaðabóta.

Byggt á umfjöllun San Francisco Chronicle.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“