Talið er að aðeins tveir af 181 einstaklingum um borð í farþegaflugvél Jeju Air hafi lifað af þegar vélin brotlenti í lendingu á alþjóðaflugvellinum Muan í Suður-Kóreu. Tvímenningarnir sem björguðust, karl og kona, voru hluti af áhöfn vélarinnar.
Kóreskir fréttamiðlar greina frá því að yfirvöld hafi tjáð ættingjum annarra farþega að litlar líkur væru á því að fleiri myndu finnast á lífi.
Flugvélin lagði af stað kl.01.30 á staðartíma í Bangkok og átti að lenda í Muan kl.8.30. Á þessari stundu eru taldar líkur á að árekstur vélarinnar við fugl hafi gert það að verkum að lendingarbúnaður vélarinnar hafi bilað. Flugmenn vélarinnar reyndu að magalenda henni á flugbrautinni með þeim afleiðingum að vélin rann á miklum hraða á steyptan vegg og sprakk þar í loft upp.
Alls voru 173 farþegar vélarinnar ríkisborgarar Suður-Kóreu auk tveggja ríkisborgara Tælands. Að auki var svo sex manna áhöfn um borð.