The Guardian segir að samkvæmt því sem Armin Papperger, forstjóri Rheinmetall, hafi sagt í samtali við dagblaðið Bild am Sonntag þá verði ekki hægt að afhenda Úkraínumönnum skriðdreka fyrr en í byrjun næsta árs og þá skipti engu þótt ákvörðun um afhendingu þeirra verði tekin á morgun.
Rehinmetall á 22 Leopard 2 á lager og 88 Leopard 1, sem er eldri útgáfa af þessum öfluga skriðdreka. En til að gera skriðdrekana bardagahæfa þarf nokkurra mánaða vinnu og það mun kosta mörg hundruð milljónir evra. Papperger sagði að fyrirtækið geti ekki lagt út í þessa vinnu og kostnað fyrr en búið sé að staðfesta pöntun á skriðdrekunum. Hann sagði að taka þurfi skriðdrekana algjörlega í sundur og setja saman á nýjan leik.
Bretar hafa lofað að senda Úkraínu Challenger 2 skriðdreka. Sú ákvörðun þrýstir á önnur NATO-ríki um að láta Úkraínumenn fá skriðdreka úr eigin vopnabúrum. Málið verður væntanlega rætt í þaula á fundi stuðningsríkja Úkraínu á föstudaginn en hann fer fram í bandarísku Ramstein herstöðinni í Þýskalandi.