Þann 10. desember síðastliðinn, fjórum dögum eftir síðustu tónleika á túr Cannibal Corpse, var O’Brien handtekinn í heimaborg sinni Tampa í Flórída-fylki. Hafði hann brotist inn í íbúðarhúsnæði nálægt Northdale-golfvellinum og ráðist á lögreglumann sem kom á vettvang innbrotsins. Ekki hefur verið gefið upp hverjir búa í húsnæðinu en O’Brien kom inn í íbúðina óboðinn um klukkan 19. Þegar kona sem býr í íbúðinni skipaði honum að fara út hrinti hann henni í gólfið. Eftir að búið var að hringja í lögregluna fór O’Brien út í bakgarðinn og faldi sig þar.
Lögreglumenn mættu á staðinn og skipuðu O’Brien að koma úr felum. Þá stökk hann á lögregluþjón með hníf á lofti en lögregluþjónninn skaut hann með rafbyssu og gerði óvígan. Var hann í kjölfarið handtekinn og færður á lögreglustöð.
Á sama tíma og þetta var að gerast barst slökkviliði borgarinnar tilkynning um að mikill eldur hefði brotist út í nágrenninu. Reyndist það vera í húsnæði sem O’Brien hafði á leigu. Strax var ljóst að töluvert magn af skotvopnum og eldvörpum var í húsnæðinu en eldurinn var svo mikill að ekki var hægt að meta umfangið samstundis.
Þann 11. desember var O’Brien leiddur fyrir dómara. Úlnliðir hans og ökklar voru hlekkjaðir saman og hann klæddur í sérstakt vesti til að koma í veg fyrir að hann gæti framið sjálfsvíg. Dómari ákvað að lausnargjaldið yrði fimmtíu þúsund dollarar, eða tæpar sex milljónir króna, en krafðist þess að O’Brien gengist undir lyfjapróf áður en honum yrði sleppt. Var hann síðan ákærður fyrir að ráðast á lögreglumann með banvænu vopni og innbrot. Fyrir þessi tvö brot gæti O’Brien átt yfir höfði sér lífstíðardóm í fangelsi.
Dauðarokkarar mala sjaldnast gull eins og poppstjörnur og því átti O’Brien ekki fyrir tryggingargjaldinu. Deana Mazurkiewicz, eiginkona trommara bandsins, kom á fót hópsöfnun fyrir hann. Hún sagði:
„Pat er ekki með tryggingu og hann tapaði öllu sem hann átti. Þessi söfnun mun hjálpa honum að ná bata og kaupa helstu nauðsynjar.“
Þremur dögum eftir úrskurðinn hafði safnast nóg og O’Brien var sleppt úr varðhaldi. Þá hafði eldurinn loks verið alveg slökktur og hægt að meta ástandið á heimilinu. Slökkviliðsmenn fundu þá gífurlegt magn af skotvopnum.
Sumt var í læstum hirslum og grunur lék á að þar væri sprengiefni. Af byssum fundust fimmtíu haglabyssur, tíu hríðskotarifflar, tvær Uzi-byssur, tuttugu skammbyssur og tvær eldvörpur. Einnig fundust þúsundir skotfæra og mörg önnur vopn, sum ólögleg og O’Brien ekki með leyfi fyrir öllum hinum. Það undarlegasta sem fannst voru hins vegar þrjár hauskúpur úr mannfólki.
Þann 20. desember sendi Cannibal Corpse frá sér eftirfarandi yfirlýsingu varðandi handtöku O’Brien:
„Sem hljómsveit og einstaklingar viljum við ekkert nema það besta fyrir Pat, bróður okkar og félaga. Við getum ekki gefið frekari upplýsingar um atvikið en við viljum láta alla vita að Pat er að fá þá aðstoð sem hann þarfnast og hann kann að meta þann stuðning sem hann hefur fengið frá aðdáendum Cannibal Corpse víðs vegar um heiminn. Pat er nú hjá fjölskyldu og vinum og hyggst snúa aftur til starfa á einhverjum tímapunkti.“
Cannibal Corpse var stofnuð í desember árið 1988 í Tampa en Pat O’Brien gekk til liðs við sveitina árið 1997. Hann hafði áður verið í sveitum á borð við Nevermore og Monstrosity. Cannibal Corpse var þegar orðið eitt af tveimur stærstu dauðarokksböndum heims, ásamt Deicide, en O’Brien var strax talinn efla bandið til muna. Á fyrstu plötunni eftir að hann kom í bandið var hann farinn að semja lög.
Hljómsveitin spilar þétt dauðarokk og er bæði þekkt og alræmd fyrir viðurstyggilega texta, lagatitla og myndskreytingar á plötum. Meðal laga þeirra má nefna „Entrails ripped from a virgin’s cunt“, „Necropedophile“, „I cum blood“ og „Fucked with a knife.“ Þeir hafa hins vegar látið það vera að fremja guðlast eins og félagar þeirra í Deicide gera óspart. Plötur Cannibal Corpse hafa oft verið bannaðar í hinum ýmsu löndum og hljómsveitinni meinað að koma fram á tónleikum. Til dæmis í Rússlandi þar sem rétttrúnaðarkirkjan taldi tónlist þeirra hvetja til voðaverka og kynbrenglunar.
Árið 2007 kom Cannibal Corpse til Íslands og hélt tvenna vel heppnaða tónleika á Nasa við Austurvöll. Voru aðrir fyrir átján ára og eldri en hinir opnir öllum aldurshópum. Meðal þeirra íslensku banda sem hituðu upp voru Mínus, Severed Crotch og Changer. Greinarhöfundur var viðstaddur aðra tónleikana og staðfestir að sjaldan eða aldrei hefur flösu verið þeytt af jafn mikilli ákefð hér á landi.