En getur hugsast að þessi „ákvörðun“ hafi verið tekin af þeirri enföldu ástæðu að kjarnorkutilraunasvæði einræðisstjórnarinnar var hrunið? Vísindamenn hjá Vísinda- og tækniháskóla Kína hafa nú birt greiningar á neðanjarðar kjarnorkutilraunssvæði Norður-Kóreu og er niðurstaða þeirra að Punggye-ri tilraunasvæðið hafi hrunið saman og sé ónothæft með öllu.
Sky er meðal þeirra erlendu fjölmiðla sem skýra frá þessu í dag. Niðurstaða kínversku vísindamannanna er að stórir hlutar tilraunastöðvarinnar, sem er inni í fjalli, hafi hrunið saman átta og hálfri mínútur eftir að kjarnorkusprengja var sprengd þar í september. Jarðvísindamenn höfðu lengi varað við að þetta gæti gerst. Nú er því ekki lengur hægt að gera tilraunir með kjarnorkuvopn í tilraunastöðinni og mikil hætta er talin á að geislavirk efni berist frá henni.
Kínversku vísindamennirnir benda á að endurteknar tilraunasprengingar og jarðskjálftar hafi valdið því að tilraunastöðin hrundi saman.
Það virðist sem allt hafi farið úr skorðum aðfaranótt 3. september en þá tilkynntu Suður-Kórea og Japan að kjarnorkusprengja hefði verið sprengd í Punggye-ri en þá mældist jarðskjálfti upp á 6,3 á svæðinu.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu skýrðu síðan frá því að þau hefðu þróað vetnissprengju sem búi yfir gríðarlegum eyðileggingarmætti. Kim Jong-un var sagður hafa skoðað sprengjuna sem að sögn var hægt að koma fyrir á langdrægum eldflaugum. Þetta hafa sérfræðingar þó efast um að sé rétt.