Leiðtogarnir munu funda í „Peace House“ sem er um 200 metrum sunnan við hlutlausa svæðið sem skilur ríkin að. Á landamærunum standa mörg þúsund þungvopnaðir hermenn vörð og fylgjast með hverri hreyfingu óvinarins hinu megin við hlutlausa svæðið.
Bærinn Panmunjom var vettvangur fundarhalda þegar samið var um vopnahlé 1953 og stendur enn nær óbreyttur. Nú vonast margir til að fundurinn á morgun verði til þess að það slakni aðeins á þeirri spennu sem hefur einkennt samskipti ríkjanna um langt skeið. Aðeins hefur þó slaknað á spennunni undanfarið eftir að Kim Jong-un rétti fram sáttarhönd í byrjun árs. Kjarnorku- og eldflaugatilraunir norðanmanna hafa verið þyrnir í augum sunnanmanna og bandarískra bandamanna þeirra.
Á laugardaginn tilkynnti Kim Jong-un að Norður-Kórea væri hætt tilraunum með kjarnorkusprengjur og eldflaugar þar sem slíkur árangur hefði náðst að ekki væri lengur þörf á tilraunum. En eins og DV skýrði frá fyrr í morgun þá er ekki víst að norðanmenn hafi hætt tilraununum ótilneyddir.
Fundurinn á morgun verður þriðji fundur leiðtoga ríkjanna síðan stríðinu lauk en þeir hafa aldrei áður fundað í Suður-Kóreu.
Þegar Kim Jong-un kemur til fundarins á morgun mun Moon Jae-in taka á móti honum en hann ætti að þekkja Panmunjom vel því hann sinnti landamæragæslu þar þegar hann gegndi herskyldu.
Fundurinn á morgun er eitthvað sem enginn sá fyrir síðasta haust en þá deildu Kim Jong-un og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hart og hernaðarsérfræðingar ræddu af fullri alvöru hvort Bandaríkin myndu gera árás á Norður-Kóreu og jafnvel beita kjarnorkuvopnum.
Fundurinn á morgun er þó kannski aðeins upphitun fyrir aðalfundinn sem verður á næstu vikum þegar Kim Jong-un og Donald Trump hittast.
Reiknað er með að fundurinn á morgun mun væntanlega snúast um innri málefni Kóreuríkjanna eins og til dæmis endurfundi fjölskyldna sem enduðu í sitthvoru landinu í Kóreustríðinu. Einnig má reikna með að rætt verði um að hefja efnahagslega samvinnu ríkjanna á nýjan leik með endurlífgun hins sérstaka efnahagssvæðis í Norður-Kóreu þar sem norður-kóreskt vinnuafl vinnur fyrir suður-kóresk fyrirtæki.