Tilraunin var hugsuð sem hugsanleg lausn á framtíðarvanda sem margir telja óumflýjanlega samhliða aukinni vélvæðingu og þar með fækkun starfa og vaxandi ójöfnuðar. Tilraun Finna hefur vakið mikla athygli og margir bundu miklar vonir við hana og áhrif hennar á félagslegt öryggi og velferðarkerfi framtíðarinnar. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, og Elon Muxk, stofnandi Tesla og SpaceX, voru meðal þeirra sem studdu tilraunina.
Hugmyndin á bak við borgaralaunin var að ef þau yrðu tekin varanlega upp myndu allir, ekki bara þeir sem eru atvinnulausir, fá greidda sömu upphæð frá hinu opinbera mánaðarlega. Stuðningsmenn tilraunarinnar segja að með þessum hætti sé hægt að takast á við fátækt og misskiptingu og að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af að ná ekki endum saman. Þeir segja einnig að þetta muni hvetja atvinnulausa til að finna sér vinnu.
Finnska ríkisstjórnin hefur hafnað beiðni finnsku almannatrygginganna um aukið fjármagn í tilraunina þannig að hægt verði að halda henni áfram og því endar hún eftir tæpt ár.
Olli Kangas, rannsakandi hjá almannatryggingunum, sagði í samtali við YLE að tilraunin þurfi að standa lengur yfir áður en hægt verður að leggja mat á árangurinn. Þetta sé stór og umfangsmikil tilraun og tveggja ára tilraunatími sé of stuttur.