Það var á sunnudaginn sem eigendur sumarhúss í Dyrhave í Aabenraa á Suður-Jótlandi komu í húsið og sáu að búið var að brjótast inn. En þetta innbrot sker sig úr fjöldanum því svo sérstakt var atferli innbrotsþjófsins.
TV Syd skýrir frá því að innbrotsþjófurinn hafi spennt upp glugga og komist inn í húsið. Hann lagðist greinilega til svefns í hjónarúminu en áður lét hann til sín taka. Hann tæmdi vínskápinn og er ekki annað að sjá en hann hafi drukkið allt áfengið. En hann klippti einnig limgerðið, sló garðinn og setti óhreint leirtau í uppþvottavélina.
Þetta verður nú að teljast ansi óvenjuleg hegðun hjá innbrotsþjófi. En þessi er greinilega mjög óvenjulegur og allt að því kurteis. Hann skildi einnig eftir bréf til húseigendanna en það er á frönsku og þegar þetta er skrifað var lögreglan ekki enn búin að finna einhvern frönskumælandi til að þýða bréfið.