fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025

Fjármálaráðherra Venesúela makaði krókinn

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 16. desember 2018 16:00

Andrade Tók við milljarði dollara í mútur á fjórum árum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega var Alejandro Andrade, fyrrverandi fjármálaráðherra Venesúela, dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir þátt sinn í umfangsmikilli spillingu í hinu sósíalíska ríki Venesúela. Dómurinn var kveðinn upp af dómstól á West Palm Beach í Bandaríkjunum. Á þeim fjórum árum sem hann var fjármálaráðherra tók hann við mútum upp á einn milljarð dollara og fóru peningarnir allir í hans eigin vasa. Á sama tíma var efnahagur landsins í kalda kolum og á hraðri niðurleið sem virðist raunar ekki enn vera á enda.

Peningana notaði Andrade meðal annars til að fjármagna nýtt líf fjölskyldunnar í Flórída á búgarði þar, lúxusbílar voru keyptir og dýrir hestar handa syninum en hann er í fremstu röð í hestaíþróttum. En nú er lúxuslífið á enda fyrir Andrade, sem er 54 ára, og við tekur dvöl í fangelsi næstu árin.

Mál hans varpar ljósi á hvernig hin sósíalíska elíta í Venesúela notar ríkissjóð til að auðgast gríðarlega á sama tíma og almenningur á ekki til hnífs og skeiðar. Það er því ekki furða þótt sumir telji að spillingin og fjárdráttur elítunnar eigi stóran þátt í þeim efnahagslegu hamförum sem Venesúela glímir við. Á síðasta ári jókst verðbólgan um milljón prósent en ástandið má einna helst bera saman við ástandið í Þýskalandi fyrir 1923 og í Simbabve í lok fyrsta áratugar þessarar aldar. Það er algjör skortur á allri nauðsynjavöru og má þar nefna lyf, salernispappír og tannkrem. Heilbrigðiskerfið er í rúst. Sameinuðu þjóðirnar segja að þrjár milljónir landsmanna hafi flúið land og að 12 prósent þeirra sem enn eru í landinu séu vannærð.

Chavez
Greiddi götu síns gamla félaga.

Leiðin til valda

Það var vinskapur Andrade við Hugo heitinn Chavez, forseta Venesúela, sem kom honum í valdastól. Þeim varð vel til vina 1992 þegar Andrade tók þátt í misheppnaðri valdaránstilraun Chavez. Þegar Chavez varð forseti sex árum síðar launaði hann vini sínum greiðann og gerði hann að lífverði sínum. Tíu árum síðar gerði hann Andrade að fjármálaráðherra. Andrade nýtti embætti til að hjálpa vini sínum, milljarðamæringnum Raul Gorrin, að fá einkarétt á viðskiptum með erlendan gjaldeyri fyrir ríkisstjórnina.

Á valdatíma Chavez var komið á ströngu kerfi gjaldeyrisviðskipta í landinu. Bandarískir dollarar eru seldir á niðurgreiddu verði, ríkið niðurgreiðir þá, á vegum umboðsmanna og á uppboðum. Dollararnir eru yfirleitt ætlaðir til kaupa á nauðsynjum eins og lyfjum. En þar sem dollarar seljast á allt að tífalt hærra verði á svartamarkaðnum hafa „hinir útvöldu“ þar með aðgang að auðveldum og miklum gróða. Gegn því að semja við Gorrin fékk Andrade hluta af ágóðanum en þetta var falið með slóð reikninga. Þegar Andrade fékk reikning sendi hann reikninginn áfram til Gorrin. Gorrin greiddi síðan reikningana sem voru svimandi háir til að hægt væri að koma peningum undan. Til dæmis greiddi hann 15.000 dollara fyrir heimsókn til dýralæknis og 175.000 dollara fyrir flutning á hestum sonar Andrade. Árið 2012 millifærði Gorrin 20 milljónir dollara af svissneskum reikningi til að greiða fyrir einkaflugvél fyrir Andrade. Árin liðu og fyrr en varði var Andrade orðinn eigandi 35 lúxusúra, 10 lúxusbíla, snekkju, sex einbýlishúsa í Flórída og 17 veðhlaupahesta.

 

Lét aðra valdamenn fá peninga

Gorrin millifærði einnig háar fjárhæðir til annarra háttsettra einstaklinga í ríkisstjórn Venesúela, í bankakerfinu og viðskiptalífinu. Mál Andrade er því aðeins toppurinn á ísjakanum í málum sem tengjast Gorrin.

Bandarísk stjórnvöld hafa beitt refsiaðgerðum gegn Diosdado Cabello, einum valdamesta stjórnmálamanni Venesúela, fyrir meintan þátt hans í eiturlyfjaviðskiptum, fjárkúgun og fjárdrætti. Þá hefur verið gefin út ákæra á hendur Nestor Revorol, innanríkis- og dómsmálaráðherra Venesúela, fyrir meinta aðstoð hans við fíkniefnasmyglara. Þá er talið að nánustu samstarfsmenn Nicolas Maduro forseta, þar á meðal eiginkona hans og varnarmálaráðherrann, hafi kerfisbundið notað ríkissjóð eins og hann væri þeirra eign. Bandaríkin hafa sett viðskiptaþvinganir á marga af þessum einstaklingum.

Bandarísk yfirvöld gátu ákært Andrade og Gorrin því stór hluti af illa fengnu fé þeirra fór í gegnum bandaríska banka eða var settur í fasteignakaup í Bandaríkjunum. Gorrin, sem bjó á Miami, er flúinn frá Bandaríkjunum en hann á til dæmis 24 íbúðir á Flórída og í New York. Yfirvöld hafa nú farið fram á að dómstóll heimili þeim að haldleggja þessar eignir.

En hvað sem öðru líður þá er veislan búin hjá Andrade-fjölskyldunni. Yfirvöld hafa lagt hald á eignir fjölskyldunnar í Bandaríkjunum, þar á með húsið á West Palm Beach en það er metið á fjórar milljónir dollara. Einnig var lagt hald á fleiri fasteignir fjölskyldunnar, lúxusbíla og bankareikninga. Hestar fjölskyldunnar voru ekki undanskildir í þessum aðgerðum yfirvalda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Tónlistarmaðurinn heimsfrægi fór yfir strikið á samskiptamiðlum: Var alls ekki hrifinn af þessum ummælum – ,,Haltu kjafti, kunta“

Tónlistarmaðurinn heimsfrægi fór yfir strikið á samskiptamiðlum: Var alls ekki hrifinn af þessum ummælum – ,,Haltu kjafti, kunta“
Pressan
Fyrir 13 klukkutímum

Þetta áttu að borða til að sofa betur

Þetta áttu að borða til að sofa betur
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Áhugi Manchester United hefur minnkað verulega

Áhugi Manchester United hefur minnkað verulega
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Eyjan
Fyrir 17 klukkutímum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

England: Bournemouth fór illa með Newcastle – Kluivert með þrennu og stoðsendingu

England: Bournemouth fór illa með Newcastle – Kluivert með þrennu og stoðsendingu
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Byrjunarlið Brentford og Liverpool – Tsimikas í bakverðinum

Byrjunarlið Brentford og Liverpool – Tsimikas í bakverðinum
EyjanFastir pennar
Fyrir 19 klukkutímum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði